Bandarísk yfirvöld hafa staðfest að dróni á vegum hersins hafi verið skotinn niður af Írönum. Dróninn var skotinn niður með eldflaug íranska hersins þar sem hann var í alþjóðlegri lofthelgi yfir Hormuz-sundi. Írönsk yfirvöld segja aftur á móti að dróninn hafi verið skotinn niður í íranskri lofthelgi.
Samkvæmt upplýsingum frá írönsku byltingarvörðunum (IRGC) var dróninn skammt frá Kuhmobarak í Hormozgan-héraði. Með því að skjóta hann niður hafi Íran sent Bandaríkjunum skýr skilaboð, segir Hossein Salami herforingi IRGC.
Mikill titringur er í samskiptum ríkjanna og greindu bandarísk yfirvöld frá því á mánudag að þúsund hermenn til viðbótar yrðu sendir til Mið-Austurlanda á næstunni en þau saka Írana um að hafa gert árásir á tvö tankskip í Ómanflóa, nálægt Hormuz-sundi, í síðustu viku. Óttast er að spennan milli ríkjanna geti leitt til átaka á þessari mikilvægu siglingaleið. Rúmur þriðjungur af allri hráolíu, sem flutt er með skipum í heiminum, fer um Hormuz-sund, m.a. um 80% af allri olíu sem flutt er til Japans.