Trump samþykkti árás á Íran

RQ-4 Global Hawk ómannaður eftirlitsdróni bandaríska hersins.
RQ-4 Global Hawk ómannaður eftirlitsdróni bandaríska hersins. AFP

Írönsk yfirvöld segjast hafa óyggjandi sannanir fyrir því að bandaríski dróninn, sem var skotinn niður í vikunni, hafi rofið lofthelgi landsins. Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi heimilað hefndaraðgerðir gagnvart Íran í gær en síðan skipt um skoðun.

New York Times hefur eftir heimildum úr Hvíta húsinu að Trump hafi samþykkt að gerðar yrðu loftáárásir á nokkra staði í Íran. 

Aðstoðar-utanríkisráðherra Írans, Abbas Araghchi, sagði svissneska sendiherranum í Íran, Markus Leitner, sem fer einnig með málefni Bandaríkjanna í Íran, frá sönnunargögnunum í gærkvöldi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu í morgun.

Mynd frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu sem á að sýna drónann skotinn …
Mynd frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu sem á að sýna drónann skotinn niður. AFP

Hluti af braki drónans fannst á hafsvæði sem tilheyrir Íran. Araghchi hvetur Bandaríkjaher til þess að virða loft- og landhelgi landsins og fara að öllu eftir alþjóðlegum reglum.

Hann ítrekaði að Íran hafi engan áhuga á að stríð og átök brjótist út við Persaflóann og varar Bandaríkin við því að grípa til aðgerða á svæðinu að óathuguðu máli. Íran muni ekki hika við að verja sig komi til þess. 

Utanríkisráðherra Íran, Mohammad Javad Zarif, sagði í gær að Íranar myndu leita til Sameinuðu þjóðanna og leggja fram sannanir á því að dróninn hafi farið inn í lofthelgi landsins áður en hann var skotinn niður.  

Donald Trump forseti Bandaríkjanna skipti um skoðun í gær.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna skipti um skoðun í gær. AFP

Samkvæmt frétt NYT áttu embættismenn og herforingjar ekki von á öðru klukkan 19 að bandarískum tíma, klukkan 23 að íslenskum tíma, að loftárásir yrðu gerðar. Þá höfðu staðið yfir stuttar en snarpar viðræður í Hvíta húsinu. Meðal annars tóku helstu þjóðaröryggisráðgjafar forsetans og leiðtogar á þinginu þátt í þeim umræðum. Þetta herma heimildir NYT úr röðum þeirra sem tóku þátt í þessum viðræðum. Trump á að hafa gefið samþykki fyrir því að skotið yrði á hernaðarlega mikilvæg skotmörk í Íran.

Þegar hætt var við árásina voru flugvélar og skip komin af stað en engum eldflaugum hafði verið skotið þegar tilkynnt var um að hætt væri við árásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert