Hrikalegar hitatölur eru farnar að berast frá veðurstofum ríkja í Mið- og Suður-Evrópu fyrir næstu viku. Á Spáni er gul viðvörun í gildi á morgun og breska veðurstofan varar við því að hitabylgjunni geti fylgt ofsaveður.
Í næstu viku er spáð um og yfir 40 stiga hita víða í Evrópu sem er afar óvenjulegt í júní. Allt frá Bretlandi, Belgíu og til Grikklands munu íbúar landanna svitna hressilega þegar hlýtt loft kemur frá Maghreb í Norður-Afríku til Evrópu.
Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Spánar bendir allt til þess að sumarið í ár verði mun hlýrra en í meðalári líkt og síðasta sumar.
Í Þýskalandi gera spár ráð fyrir 37 stiga hita á þriðjudag og 38 gráður á miðvikudag. Svipaðar hitatölur eru að berast frá Belgíu og Sviss.
Í Bretlandi hefur veðurstofan varað landsmenn við heitu, röku og óstöðugu veðri næstu daga.
Grikkir eru þeir sem verða sennilega einna verst úti því þar er spáð 39 stiga hita um helgina og í Frakklandi hefur júní sjaldan verið jafn hlýr og nú. Á þriðjudag er spáð þar 35-40 stiga hita og dregur ekkert úr hitanum að næturlagi. Þannig að þar í landi þarf fólk að búa sig undir svefnlausar nætur nema það búi svo vel að vera í loftkældu rými.
Frá árinu 1947 hefur aðeins einu sinni verið jafn hlýtt í júní í Frakklandi en það var í hitabylgjunni skelfilegu árið 2005 þegar 15 þúsund létust. Varar veðurstofan við því að hitinn muni vera á bilinu 35-40 stig í Frakklandi í sex daga hið minnsta.