Lögreglan á heimili Boris Johnson

Boris Johnson.
Boris Johnson. AFP

Lögreglan var kölluð á heimili breska þingmannsins Boris Johnson og unnustu hans, Carrie Symonds, aðfararnótt föstudags vegna hávaða og rifrildis. Það voru nágrannar sem höfðu samband við lögreglu eftir að orðaskakið stigmagnaðist þegar á leið með tilheyrandi ópum, öskum og skellum.

Nágranni segir í samtali við Guardian að þau hafi heyrt konu æpa og hún hafi öskrað á Johnson að fara af sér og hypja sig á brott úr íbúð hennar. Allt bendir til þess að Johnson verði næsti forsætisráðherra Breta en Symonds er fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi breska Íhaldsflokksins.

Að sögn nágranna höfðu þau samband við Neyðarlínuna eftir að ekkert svar barst þrátt fyrir að þau hafi barið á hurð íbúðarinnar til að kanna hvort allt væri í lagi. Skömmu síðar kom lögreglan á vettvang skömmu síðar en stoppaði stutt eftir að bæði Symonds og Johnson sögðu þeim að ekkert amaði að.

Kosið verður á milli Bor­is John­sons, fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra Bret­lands, og Jeremy Hunts ut­an­rík­is­ráðherra í lokaum­ferð leiðtoga­kjörs Íhalds­flokks­ins þegar skráðir fé­lag­ar í flokkn­um greiða at­kvæði í næsta mánuði.

Bor­is John­son er álit­inn sig­ur­strang­legri en Jeremy Hunt þar sem hann nýt­ur mik­illa vin­sælda meðal fé­laga flokks­ins. Gert er ráð fyr­ir því að leiðtoga­efn­in haldi alls sex­tán fundi sam­an víða um Bret­land og etji kappi í tvenn­um sjón­varp­s­kapp­ræðum áður en fé­lag­ar í flokkn­um greiða at­kvæði í póst­kosn­ingu. Gert er ráð fyr­ir að úr­slit leiðtoga­kjörs­ins liggi fyr­ir í vik­unni sem hefst 22. júlí og sig­ur­veg­ar­inn verði þá for­sæt­is­ráðherra í stað Th­eresu May sem ákvað að segja af sér vegna deil­unn­ar um Brex­it.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka