Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands og annar þeirra tveggja sem eftir standa í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins, sagði við Sky-fréttastofuna í dag að sá sem vilji verða forsætisráðherra Bretlands ætti að „svara spurningum um allt“.
Boris Johnson, sem þykir líklegri til þess að verða leiðtogi Íhaldsflokksins og þar með næsti forsætisráðherra Bretlands, neitaði á framboðsfundi í gær að svara spurningum um meint rifrildi sitt við unnustu sína Carrie Symonds, sem varð til þess að áhyggjufullur nágranni parsins hringdi í lögreglu sem mætti svo á heimili þeirra.
Hunt sagði við Sky að þetta mál Johnson, sem vakið hefur mikla athygli í Bretlandi, komi leiðtogakjörinu þó ekki við, þar sem Bretland sé í „svo alvarlegri stöðu“ vegna Brexit.
Hunt sagði jafnframt að það sem komi upp á einkalífi fólks sé þeirra mál, en að það sem að breskan almenning varði mest sé hvor þeirra Johnson verði „vitri forsætisráðherrann sem stýrir landinu út úr stærstu stjórnskipulegu krísu sem þau hafi upplifað“.
Hunt gagnrýndi Johnson fyrir að svara ekki erfiðum spurningum um Brexit og sagði einnig að hann yrði ekki langlífur í embætti forsætisráðherra ef hann myndi ekki tala hreint út við þingmenn um það hvernig hann hygðist koma útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu til framkvæmda.