Nokkur viðbúnaður er í Frakklandi og víðar vegna hitabylgjunnar sem gengur yfir Evrópu í vikunni, en búist er við því að hitinn í Frakklandi fari yfir 40 gráður er líða tekur á vikuna.
Agnez Buzyn heilbrigðisráðherra Frakka segist hafa áhyggjur af þeim sem telji slíkan hita vera minni háttar mál.
„Þetta hefur áhrif á okkur öll, enginn er ofurhetja þegar það kemur að því að takast á því jafn gríðarlegan hita og við munum sjá á fimmtudag og föstudag,“ sagði Buzyn á blaðamannafundi í dag og beindi því til fólks að slaka á öllum líkamsæfingum á meðan að hitabylgjan gengur yfir og forðast það að vera í sólinni.
Emmanuel Demael, veðurfræðingur hjá Meteo-France, segir að Frakkar hafi ekki séð hitabylgju af þessum toga ganga yfir svo snemma sumars síðan árið 1947 og Muriel Penicaud ráðherra vinnumarkaðsmála í frönsku stjórninni hefur biðlað til atvinnurekenda um að hjálpa starfsmönnum sínum að takast á við sligandi hitann.
Búist er við því að hitinn verði sérlega mikill í norðurhluta landsins síðar í vikunni og hafa borgaryfirvöld í höfuðborginni París heitið því að opna kæld herbergi í opinberum byggingum, setja upp bráðabirgðavatnshana á götum úti og framlengja opnunartíma sundlauga, svo fólk geti kælt sig niður að kvöldi dags.
Rafmagnsviftur hafa gjörsamlega rokið út hjá raftækjasölum vegna yfirvofandi hita og samkvæmt frétt AFP er búist við því að orkunotkun Frakka muni verða langt umfram það sem eðlilegt er á þessum árstíma.
BBC segir Frakka séu sérstaklega meðvitaðir um þær hættur sem fylgja hitanum, enda hafi 15.000 manns látist í ágúst árið 2003 í sérlega skæðri hitabylgju. Þá mældist mesti hiti sem mælst hefur í Frakklandi frá upphafi mælinga, 44,1 gráða.