Tölvuárásir bandarískra stjórnvalda gegn Íran hafa aldrei tekist. Þetta fullyrða stjórnvöld þar í landi en bandarískir fjölmiðlar greindu frá því í gær að Bandaríkin hafi gert tölvuárás á eldflaugavarnarkerfi Írans og njósnakerfi landsins eftir að dróni Bandaríkjahers var skotinn niður af Írönum.
„Fjölmiðlar eru að spyja um sannsögli meintra tölvuárása gegn Íran. Engin tölvuárás hefur heppnast, sama hvað þeir reyna,“ segir Mohammad Javad Azari Jahromi, ráðherra fjarskiptamála í Íran, á Twitter.
رسانهها از صحت حمله سایبری ادعایی به ایران پرسیدند. باید بگویم که مدتهاست ما با تروریسم سایبری -مثل استاکسنت- و یکجانبهگرایی-مثل تحریمها- مواجهیم. نه یک حمله، بلکه در سال گذشته ۳۳میلیون حمله را با سپر دژفا خنثی کردیم. حمله موفقی از آنها صورت نگرفته، هرچند تلاشهای زیادی میکنند
— MJ Azari Jahromi (@azarijahromi) June 24, 2019
Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því í gær að forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, heimilaði tölvudeild hersins að gera tölvuárás á Íran skömmu eftir að forsetinn greindi frá því að hann myndi kynna frekari refsiaðgerðir í garð Írana eftir helgi.
Árásin á að hafa lamað tölvukerfið sem annast stjórn á eldflaugaskotum að því er segir í frétt Washington Post en samkvæmt Yahoo News var einnig gerð tölvuárás á njósnahóp sem ber ábyrgð á eftirliti með skipum á Persaflóa. Jahromi segir að engin tölvuárás bandarískra stjórnvalda á tölvukerfi í Íran hafi heppnast.
Jahromi segir að Íran hafi þurft að glíma við tölvuárásir af ýmsu tagi, svo sem Stuxnet-vírusinn, sem talið er að hafi verið hannaður fyrir nokkrum árum til að ná stjórn yfir tölvuforritinu sem stýrir kjarnorkuáætlun Írans.
Jahromi fullyrðir að stjórnvöldum hafi tekist að koma í veg fyrir 33 milljónir tölvuárása á síðasta ári.