Sendiherra Írans hjá Sameinuðu þjóðunum segir að ekki séu uppi réttu aðstæðurnar fyrir viðræður við Bandaríkin eftir að Donald Trump lagði nýjar efnahagsþvinganir á landið.
Á sama tíma og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði fyrir luktum dyrum um deilur Írans og Bandaríkjanna sagði Majid Takht Ravanchi, sendiherra Írans hjá SÞ að Bandaríkin verði að hætta „efnahagsstríði sínu við íranska fólkið“.
„Þú getur ekki hafið viðræður við einhvern sem er að hóta þér, sem er að hræða þig,“ sagði Ravanchi. „Andrúmsloftið fyrir slíkt samtal er ekki fyrir hendi enn sem komið er.“
Utanríkisráðherra Írans greindi frá því fyrr í kvöld að Trump hefði haft rétt fyrir sér þegar hann sagði að bandarískt herlið eigi ekki að fara í Persaflóa. Þetta sagði Mohammad Javad Zarif eftir að Trump bað önnur ríki um að vernda olíuflutningaskip sín.
Zarif bætti því við á Twitter-síðu sinni að Trump og samstarfsfólk hans sem hafa gengið hart fram gegn Íran „fyrirlíti samningaviðræður“.