„El infierno [helvíti] nálgast”

Fólk reynir að kæla sig hvar sem færi gefst í …
Fólk reynir að kæla sig hvar sem færi gefst í stórborgum Evrópu þessa dagana. AFP

Franska ríkisstjórnin greindi frá því í gær að ákveðið hafi verið að fresta samræmdum prófum sem halda átti í vikunni vegna hitabylgjunnar sem er handan við hornið í Frakklandi og víðar í Evrópu.

Menntamálaráðherra Frakklands, Jean-Michel Blanquer, segir að Brevet-prófið, sem er lagt fyrir 14 ára unglinga, verði ekki haldið á fimmtudag og föstudag líkt og til stóð heldur frestað þangað til í næstu viku.

Frá Róm í gær.
Frá Róm í gær. AFP

Spáð er yfir 40 stiga hita síðar í vikunni í hluta Frakklands og svipaðar hitatölur eru væntanlegar í nágrannaríkjunum. 

Að sögn Blanquer verða prófin haldin 1. og 2. júlí þegar spáð er kólnandi veðri. Ákvörðun þar að lútandi var tekin til þess að tryggja öryggi barnanna segir hann.

Veðurspár gera ráð fyrir hæsta hita í Frakklandi í júnímánuði frá því árið 1947. Börn og eldra fólk er ráðlagt að halda sig innandyra og gefnar hafa verið út ráðleggingar um hvernig eigi að forðast ofþornun og sólsting. 

Gosbrunnurinn á Trocadero í París.
Gosbrunnurinn á Trocadero í París. AFP

Spár veðurfræðinga sýna að hitinn gæti farið yfir 40 gráður allt frá Spáni til Sviss en ástæðan er hlýtt loft sem kemur frá Sahara eyðimörkinni samfara stormi yfir Atlantshafinu og háum loftþrýstingi yfir Mið-Evrópu. 

Spænski veðurfræðingurinn Silvia Laplana segir að hitinn verði eins og 47 gráður vegna mikils raka. „El infierno [helvíti] nálgast,” skrifar hún á Twitter en Laplana er sjónvarpsveðurfréttakona. Á fimmtudag er spáð 42 stiga hita í Ebro, Tagus, Guadiana og Guadalquivir og er varað við mikilli hættu á skógareldum. 

Í París er búið að setja upp kæliherbergi í opinberum byggingum, sundlaugar eru opnar fram á nótt og drykkjarbrunnar hafa verið settir upp víða. Í gær var 34 stiga hiti í París og svipaða sögu er að segja í dag. En síðan fer hitinn ört hækkandi það sem eftir lifir vikunnar. 

Að sögn heilbrigðisráðherra Frakklands, Agnès Buzyn, hefur hún áhyggjur af fólki sem gerir lítið úr áhrifum hitans og heldur áfram að æfa útivið líkt og venjulega eða er úti í sólinni. 

„Þetta hefur áhrif á okkur öll. Það er enginn ofurhetja þegar kemur að því að takast á við öfgakenndan hita eins og við erum að upplifa á fimmtudag og föstudag,“ sagði hún á fundi með blaðamönnum í gær.

Eldra fólk er sérstaklega varað við því að vera á …
Eldra fólk er sérstaklega varað við því að vera á ferli útivið þegar svo heitt er í veðri. AFP

Emmanuel Demaël, veðurfræðingur hjá frönsku veðurstofunni, Météo-France, segir að það sem sé svo sérstakt við þessa hitabylgju sé hversu snemma hún komi. Að jafn hár hiti og þetta mælist í Frakklandi í júní hefur ekki gerst síðan árið 1947. Hann segir að hitamet muni væntanlega falla víða í Frakklandi og að næturlagi sé afar ólíklegt að hitinn fari undir 20 gráður.

Í ágúst 2003 upplifðu Frakkar verstu hitabylgju frá því mælingar hófust en þá létust tæplega 15 þúsund manns.

Á Ítalíu er sömu sögu að segja og er starfsfólk sjúkrahúsa í óða önn við að gera allt klárt áður en hitabylgjan skellur á. Heilbrigðisráðuneytið hefur tilkynnt að herlæknar verði á bakvakt og tilbúnir til þess að grípa inn á bráðamóttökum ef mikið verður um hitatengdar innlagnir. 

Frá Lyon í gær.
Frá Lyon í gær. AFP

Spáð er 37-40 stiga hita í Norður- og Mið-Ítalíu, þar á meðal Róm, Flórens, Bologna, Mílanó og Túrín. Talið er að júní hitamet eigi eftir að fala í mörgum borgum Ítalíu síðar í vikunni. 

Borgaryfirvöld í Róm vara við þeirri heilbrigðisvá sem fylgir því ef rusl safnast upp og átta ferðamenn, þar á meðal Bretar, voru sektaðir um 450 evrur hver á sunnudag fyrir að kæla sig niður í gosbrunnum borgarinnar. 

Sabine Krüger, veðurfræðingur á þýsku veðurstofunni, DWD, segir að hitametið í júní sé 38,2 gráður í Frankfurt árið 1947 en fátt virðist geta komið í veg fyrir að það met falli á næstu dögum. Á morgun er spáð 39-40 stiga hita í Frankfurt og í Berlín er spáð að hitinn fari í 37 gráður á morgun.

Frétt Guardian

Á Íslandi eru viftur notaðar til varnar lúsmýi en á …
Á Íslandi eru viftur notaðar til varnar lúsmýi en á meginlandi Evrópu er það hitasvækjan sem verið er að verjast. AFP
Í Frakklandi hefur vatnshönum verið bætt við í borgum til …
Í Frakklandi hefur vatnshönum verið bætt við í borgum til þess að tryggja góðan aðgang að vatni á meðan hitabylgjan gengur yfir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert