Frederiksen verður forsætisráðherra

Mette Frederiksen, tilvonandi forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, tilvonandi forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Mette Frederiksen, formaður Sósíaldemókrata, er nýr forsætisráðherra Danmerkur. Hún mun leiða minnihlutastjórn flokks síns, sem studd verður af þingmönnum Einingarlistans, Sósíalíska þjóðarflokksins og miðjuflokksins Radikale Venstre. Samanlagt hafa flokkarnir 91 sæti á þingi, 93 séu þingmenn færeyskra og grænlenskra systurflokka meðtaldir, af 175 á danska þinginu. Kosið var til þings í Danmörku á stjórnarskrárdeginum, 5. júní.

„Það er mikið gleðiefni að okkur hafi nú, eftir þriggja vikna viðræður, tekist að mynda nýja sósíaldemókratíska ríkisstjórn í Danmörku,“ sagði Frederiksen við blaðamenn í Kristjánsborgarhöllinni nú fyrir stundu, en blaðamenn hafa beðið eftir forsætisráðherraefninu í allan dag meðan leiðtogar flokkanna hafa lagt lokahönd á stjórnarsáttmálann.

Sama harða útlendingastefnan, en þó ögn mildari

Meðal þess sem segir í sáttmálanum er að Danir muni á ný taka við kvótaflóttamönnum, en því var hætt í tíð síðustu ríkisstjórnar, að undirlagi Danska þjóðarflokksins, sem varði ríkisstjórnina falli. Áður tóku Danir árlega við 500 slíkum, en ekki liggur fyrir hver fjöldi þeirra verður nú.

Komið verður á fót kynningarskrifstofum í öðrum ríkjum Evrópusambandsins til að laða að námsmenn og hagleiksmenn til náms og starfa í Danmörku, einkum til þeirra svæða landsins sem mest þurfa á auknu evrópsku vinnuafli að halda.

Frederiksen ítrekaði þó að staðið yrði við hina hörðu útlendingastefnu, sem flokkurinn boðaði í aðdraganda kosninganna.

Hún sagði að ekki yrði hróflað við almennu regluverki í kringum málefni flóttafólks, sem komið var á til að stemma stigu við fjölgun umsækjenda upp úr 2015. Undir það falla reglur um sameiningu fjölskyldna, brottvísun þeirra sem gerast brotlegir við lög, samningar um ríkisborgararétt og fleira. Sama gildir um hina svokölluðu „viðhorfsbreytingu“ (d. paradigmeskiftet) sem lögfest var fyrr á árinu, með stuðningi Sósíaldemókrata, Danska þjóðarflokksins og ríkisstjórnarinnar, og kveður meðal annars á um að öll landvistarleyfi til flóttafólks skuli héðan af einungis vera tímabundin.

Landamærasteinninn, á mörkum Þýskalands og Danmerkur. Dönsk stjórnvöld hafa óreglulegt …
Landamærasteinninn, á mörkum Þýskalands og Danmerkur. Dönsk stjórnvöld hafa óreglulegt eftirlit með ferðum yfir þau. Ljósmynd/Wikipedia

Landamæraeftirliti, sem komið var á við landamærin að Þýskalandi 6. janúar 2016, verður framhaldið. Eftirlitið er háð undanþágu frá regluverki Schengen-samstarfsins og aðeins endurnýjað til sex mánaða í senn. Danir hafa á síðustu árum, ásamt fleiri ríkjum, nýtt sér undanþáguna vegna meints flóttamannavanda, en hún er aðeins ætluð til brúks vegna tímabundinnar ógnar og segir í lögum Evrópusambandins að hana skuli aðeins nýta sem neyðarúrræði.

Hafa margir velt fyrir sér hvort sú neyð sé enn til staðar í ljósi mikillar fækkunar í komu flóttafólks til álfunnar á undanförnum misserum, frá því sem mest lét árið 2015. Morten Østergaard, leiðtogi miðjuflokksins Radikale Venstre, sem ver stjórnina falli, hefur lýst landamæraeftirlitinu sem dæmi um ímyndarstjórnmál (d. symbolpolitik), aðgerð sem hafi litla þýðingu en sé ætlað að senda skilaboð um viðhorf danskra stjórnmála í málefnum útlendinga.

Tókst að mynda hreina stjórn Sósíaldemókrata

Athygli vekur að flokkarnir fjórir hafa, að sögn Piu Olsen Dyhr, formanns Sósíalíska þjóðarflokksins, ekki komið sér saman um útlistaða fjármálaáætlun. Það standi þó fyrir dyrum.

Leggja á af próf í yngstu bekkjum grunnskólans, og hætta með samræmd próf sem tekin hafa verið í 8. bekk (ígildi 9. bekkjar á Íslandi). Þá á að auka veg námsráðgjafa á skólastiginu.

Frederiksen lagði í aðdraganda kosninganna áherslu á að hún vildi mynda hreina stjórn Sósíaldemókrata, sem studd yrði af öðrum flokkum rauðu blokkarinnar. Blés hún ítrekað á umleitanir Lars Løkke Rasmussen, formanns hægriflokksins Venstre og fráfarandi forsætisráðherra, til að mynda „breiða stjórn yfir miðjuna“ sem varla mátti túlka öðruvísi en boð til Sósíaldemókrata um stjórnarmyndunarviðræður.

Løkke gat ekki leynt vonbrigðum sínum í færslu, sem hann setti á Twitter, eftir að ríkisstjórnin var kynnt, þar sem hann gagnrýndi flokkana fyrir skort á samráði.

 Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert