Robert Mueller, sem fór fyrir rannsókn á mögulegum afskiptum Rússa af forsetakosningum í Bandaríkjunum 2016, hefur fallist á að koma fyrir tvær þingnefndir fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í næsta mánuði.
„Rússar reyndu að hafa áhrif á kosningarnar okkar og það er eitthvað sem allir Bandaríkjamenn ættu að láta sig varða,“ sagði Mueller um tveggja ára rannsókn hansþegar hann tjáði sig opinberlega um málið í lok maí, en skýrsla hans var gefin út í apríl. Mueller mun koma fyrir nefndirnar 17. júlí.
Vitnaleiðslurnar verða sýndar í beinni útsendingu og gera má ráð fyrir að þingmenn Demókrataflokksins reyni að fá svör frá Mueller sem greiði þeim leið til að leggja fram ákæru á hendur Trump fyrir embættisbrot (e. impeachment).
Demókratar skiptast í tvær fylkingar hvort fara eigi fram á ákæru eða ekki gegn forsetanum. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, er ein þeirra sem telur það óráðlegt þar sem stuðningur við ákæruna á þingi er líklega ekki nægilegur.
Trump er vitanlega ekki alls kostar sáttur við ákvörðun Mueller að koma fyrir nefndirnar og tjáði hann sig stuttlega á Twitter þar sem hann sakar Mueller um árás gegn forsetaembættinu.
Presidential Harassment!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) June 26, 2019