Telja að Hagen hafi verið myrt

Anne-Elisabeth Hagen var rænt af heimili sínu 31. október í …
Anne-Elisabeth Hagen var rænt af heimili sínu 31. október í fyrra. Ekkert hefur spurst til hennar síðan og norska lögreglan telur nú að hún hafi verið myrt. AFP

Lögreglan í Lillestrøm í Noregi telur að Anne-Elisabeth Hagen, sem hvarf sporlaust af heimili sínu í Fjell­ham­ar í Løren­skógi í október í fyrra, hafi verið myrt en ekki rænt til að krefjast lausnargjalds. Frá þessu var greint á blaðamannafundi lögreglu í dag. 

Tæpir átta mánuðir eru nú liðnir frá því Hagen hvarf af heim­ilinu og hefur norska lög­regl­an talið veru­legt áhyggj­efni að ekk­ert lífs­mark hafi borist á öll­um þeim tíma.

Helsta kenn­ing lög­reglu hingað til hef­ur verið að Hagen, sem er gift millj­arðamær­ing­n­um Tom Hagen, hafi verið rænt. Ekk­i er hins veg­ar vitað hvort hún sé lífs eða liðin, en óprúttn­ir aðilar hafa reynt að svíkja fé út úr eig­in­manni henn­ar.

Tommy Brøske rannsóknarlögreglumaður sagði á fundinum í morgun að líklegast væri að Hagen hefði verið myrt. Hann vildi hins vegar ekki tjá sig um hvort einhver hefði verið handtekinn eða hvort einhver væri grunaður um morðið. 

Brøske segir að allt bendi til þess að mannránið hafi verið sviðsett af meintum morðingja, eða morðingjum, til að fela slóðina. Tíminn leikur stórt hlutverk í kenningu lögreglunnar en engar vísbendingar benda til þess að hún sé á lífi. 

Tommy Brøske rannsóknarlögreglumaður sagði á fundinum í morgun að líklegast …
Tommy Brøske rannsóknarlögreglumaður sagði á fundinum í morgun að líklegast væri að Hagen hefði verið myrt. Hann vildi hins vegar ekki tjá sig um hvort einhver hefði verið handtekinn eða hvort einhver væri grunaður um morðið. AFP

Bréfsefni og jepplingur einu vísbendingarnar

Það síðasta sem heyrðist frá Anne-Elisa­beth Hagen var sím­tal til eins úr fjöl­skyld­unni klukk­an 09:14 þann 31. októ­ber. Eig­inmaður henn­ar, Tom Hagen, fór í vinn­una um klukk­an 9 og kom til baka um 13:30. Hálf­tíma síðar hafði hann sam­band við lög­reglu en þá hafði hann fundið bréf frá mann­ræn­ingj­un­um þar sem þeir kröfðust þess að fá 9 millj­ón­ir evra í lausn­ar­fé. Greiðslan átti að vera í raf­mynt. 

Brøske segir að lögreglan hafi fengið nýjar upplýsingar um bréfin og telur sig vita um uppruna bréfsefnisins og hvar það var keypt. Nýlega var einnig greint frá því að sést hafi til grás jepplings við heimili Hagen daginn sem hún hvarf. Ekki hefur tekist að hafa upp á bílnum eða ökumanni hans, þó svo að öryggismyndavélar séu á svæðinu. 

Frá því að bréfið barst hafa mannræningjarnir sent rafræn skilaboð þrisvar sinnum, síðast í febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert