Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sást hríðskjálfa í annað sinn við athöfn í Berlín í morgun, átta dögum eftir að svipað atvik átti sér stað.
Áhyggjur af heilsu Merkel vöknuðu eftir að hún titraði og skalf við hlið Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, 18. júní. Merkel sagðist vera við góða heilsu og sagði skjálftann vera til kominn vegna uppþornunar.
Á myndbandi BBC frá því í morgun sést Merkel, 64 ára, grípa um hendur sér á meðan hún skalf. Um tveimur mínútum síðar virðist hún stöðugri þegar hún tók í hönd nýs dómsmálaráðherra Þýskalands, Christine Lambrecht.
Var Merkel boðið vatnsglas sem hún drakk ekki, en samkvæmt talsmanni hennar Steffen Seibert mun kanslarinn halda til Japans um hádegi samkvæmt áætlun.
Atvikið átti sér stað þegar forseti Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, kynnti nýjan dómsmálaráðherra við hátíðlega athöfn. Samkvæmt BBC var svalt inni í salnum þar sem athöfnin var haldin þrátt fyrir mikinn hita úti fyrir, en eftir síðasta skjálftakast sagði Merkel að uppþornunin hefði stafað af heitu veðri og að henni hefði liðið betur eftir að hafa drukkið vatnsglas.