NATO-ríki tryggi öryggi í Persaflóa

Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, biður NATO-ríkin um stuðning vegna stöðunnar …
Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, biður NATO-ríkin um stuðning vegna stöðunnar í Persaflóa. AFP

Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti á blaðamannafundi í höfuðstöðvum NATO í Brussel í dag að hann hafi beðið aðildarríki bandalagsins um stuðning í deilunni við Íran. Vildi hann meðal annars að NATO-ríkin myndu beita Íran þrýstingi til þess að draga úr spennu, að því er fram kemur í Washington Post.

Útskýrði ráðherrann að með stuðningi sé átt við allt frá fordæmingu framgöngu Írans til þess að taka þátt í alþjóðlegu bandalagi til þess að tryggja siglingaöryggi í Persaflóa.

„Markmiðið er að forðast stríð við Íran. Það sem við viljum gera er að komast úr þessari hernaðarbraut yfir á viðræðubrautina.,“ sagði Esper og bætti við að hætta væri á að málið færi úr böndunum ef ekki er tekið á því.

Ráðist hefur verið á nokkur flutningaskip í Persaflóa að undanförnu, þar af tvö með norskt skráningarnúmer. Þá hefur því verið haldið fram að Íran standi bak við árásir á skipin og hóf Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sérstaka umræðu um stöðuna gagnavart Íran á fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkja í höfuðstöðvum bandalagsins í dag.

Norðmenn til í að skoða þátttöku

Norðmenn eru reiðubúnir til þess að taka þátt í aðgerðum til þess að tryggja siglingafrelsi og öryggi siglinga um Hormuz-sund í Persaflóa, að því er fram kemur í umfjöllun VG.

„Það er mikilvægt að alþjóðasamfélagið tryggi að alþjóðalög séu virt. Það getur verið ástæða til þess að mynda bandalag um það,“ er haft eftir Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs.

Fram kemur í umfjöllun VG að Bandaríkin hafa nú þegar verið í samskiptum við norðmenn vegna siglingaöryggi á umræddu svæði, en norsk stjórnvöld hafa til þessa ekki hafið formlegar viðræður um skipulagningu aðgerða. „Ef það berst beiðni um það, viljum við taka þátt í þeim umræðum,“ segir Bakke-Jensen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert