4 milljónir hafa flúið Venesúela

Mikil mótmæli hafa verið undanfarin misseri í Venesúela vegna efnahags- …
Mikil mótmæli hafa verið undanfarin misseri í Venesúela vegna efnahags- og stjórnmálaástandsins í landinu. AFP

Um fimm þúsund yfirgefa Venesúela á hverjum degi samkvæmt skýrslu Samtaka Ameríkuríkja (OAS) sem birt var í dag. Þá er talið að fjöldi þeirra sem hafa flúið landið verði kominn í átta milljónir við árslok 2020.

Efnahagsástandið í Venesúela var eitt af viðfangsefnum tveggja daga fundar OAS í Medellin í Kólumbíu sem hófst gær. Fulltrúar Úrúgvæ gengu af fundinum í mótmælaskyni vegna þess að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í Venesúela fengu að sitja fundinn, að því er fram kemur í umfjöllun Reuters.

Miklar efnahagsþrengingar hafa verið í landinu að undanförnu og ríkir talsverð spenna milli stuðningsmanna Nicolas Maduro, forseta Venesúela, og leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Juan Guaido. Fjöldi ríkja hafa viðurkennt Guaido sem lögmætan leiðtoga landsins.

Næst mestu fólksflutningar í heimi

Sameinuðu þjóðirnar áætla að um fjórar milljónir manna hafa þegar flúið Venesúela. 1,3 milljónir þeirra eru í Kólumbíu, 850 þúsund í Perú og 263 þúsund í Ekvador.

„Þetta eru mestu fólksflutningar í sögu heimshlutans, næst mestu flutningar í heimi á eftir Sýrlandi þar sem hefur verið stríð í um átta ár,“ sagði David Smolansky, ein ábyrgðarmanna skýrslu OAS, í dag.

Ríkisstjórnir ríkja í Suður-Ameríku hafa ítrekað biðlað til alþjóðasamfélagsins um aðstoð til þess að mæta heilbrigðis-, húsnæðis- og menntunarþörfum fólksins sem nú flýr stjórn Nicolas Maduro í Venesúela.

AFP

Aðeins 100 dalir á hvern flóttamann

Aðeins 21% af þeim 738 milljónum bandaríkjadala, jafnvirði 92 milljörðum íslenskra króna, sem alþjóðasamfélagið gaf fyrirheit um á þessu ári hefur borist, er haft eftir Carlos Holmes Trujillo, utanríkisráðherra Kólumbíu.

Þá hefur Kólumbíu aðeins borist 66 milljónir bandaríkjadala af þeim 315 milljónum sem átti að styðja við móttöku flóttamanna.

Samkvæmt skýrslu OAS er ráðstafar alþjóðasamfélagið um 5 þúsund bandaríkjadölum, jafnvirði 625 þúsund íslenskum krónum, að meðaltali á hvern sýrlenskan flóttamann, en aðeins hundrað bandaríkjadölum, jafnvirði 12.500 krónum, að meðaltali á hvern flóttamann frá Venesúela, sagði Trujillo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert