„Frábær samhljómur“ á G-20 fundi

Vel virtist fara á með Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, …
Vel virtist fara á með Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og Donald Trump Bandaríkjaforseta á fundi G-20 ríkjanna um stafræna heimshagkerfið í morgun. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir „frábæran samhljóm“ vera á G-20 fundinum, sem nú stendur yfir í Osaka í Japan. Leiðtogar tuttugu helstu iðnríkja heims, auk Evrópusambandsins, eru þar samankomnir í boði Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan.

Samhljómurinn, sem Trump talar um, er vísun í japanska tímaskeiðið Reiwa sem útleggst sem Samhljómur en það hófst 1. maí síðastliðinn er Akihitio Japanskeisari lét af embætti og sonur hans, Naruhito, tók við völdum, ef völd skyldi kalla. Aldalöng hefð er fyrir því í Japan að gefa embættistíðum keisara slík heiti en valdatíð Akihito gekk undir nafninu Heisei (ísl. allsherjarfriður).

Leiðtogar G-20 ríkjanna, tuttugu helstu iðnríkja heims auk Evrópusambandsins, funda nú í Osaka í Japan og viðbúið að viðskiptadeilur Kínverja og Bandaríkjamanna muni setja mark sitt á fundinn.

Segja má að andi samhljómsins hafi svifið yfir vötnum, í það minnsta í málflutningi Bandaríkjaforseta, sem sagði blaðamönnum að Angela Merkel væri „frábær, frábær kona“ og hann væri glaður að eiga hana að sem vin, en hann hafði stuttu fyrir fund lýst Þjóðverjum sem óreiðumönnum (e. deliquent) fyrir að standa ekki undir nægilega stórum hluta útgjalda Atlantshafsbandalagsins.

Merkel virtist við ágæta heilsu á fundinum, en hún hún hefur í tvígang sést skjálfa óstjórnlega á opinberum athöfnum. Talsmenn þýskra stjórnvalda hafa kennt vökvaskorti um, en mikil hitabylgja hefur gengið yfir Evrópu síðustu daga.

Þá virtist vel fara á með Trump og Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem mætir nú til fundarins í síðasta sinn en hann lætur af embætti 1. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert