Nokkrir hafa látið lífið í hitabylgjunni sem gengur nú yfir Evrópu. Á Spáni lést 17 ára starfsmaður á sveitabæ sem fékk krampa eftir að hafa unnið úti allan daginn. Þá lést áttræður maður á götu úti í borginni Valladolid á Norður-Spáni.
Íbúar meginlandsins búa sig nú undir að hitamet verði slegin um allar koppagrundir. Í Frakklandi hafa veðurstofa og almannavarnir gefið út rauðar viðvaranir á fjórum svæðum. Fyrir skömmu bárust fregnir af því að hitamet hefði fallið þar í landi.
Lögregla í Bretlandi varar fólk við hættunni sem getur falist í því að kæla sig niður í ám og vötnum, en 12 ára stelpa drukknaði í á í Manchester í gærkvöldi. „Það er skiljanlegt að fólk freisti þess að kæla sig í vatni á heitum degi, en vatnið er þó enn ískalt og fólk getur misst andann,“ er haft eftir lögregluþjóni á svæðinu.
Hitabylgjan á uppruna sinn í norðanverðri Afríku og orsakast af háþrýstingi yfir miðri Evrópu og stormi sem gengur yfir Atlantshafið. BBC hefur eftir veðurfræðingum að erfitt er að tengja einstök atvik við loftslagsbreytingar en ljóst sé að þær hafi í för með sér að veðuröfgar sem þessar verði algengari.
Rannsóknir veðurrannsóknarstöðvar í Potsdam í Þýskalandi hafa leitt í ljós að fimm heitustu sumur frá árinu 1500 hafi öll verið á 21. öldinni, það er á síðustu 20 árum, og óttast menn nú sem fyrr að áframhaldandi brennsla á jarðefnaeldsneyti komi til með að hafa alvarleg áhrif á stöðugleika í hitastigi plánetunnar.