Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ætlar að nota tækifærið á fundi leiðtoga G-20-ríkjanna sem hefst í dag til þess að ræða augliti til auglitis við Vladimír Pútín, forseta Rússlands, um Skripal-málið. Þar ætlar hún að ítreka kröfu Breta um að þeir sem beri ábyrgð á því að hafa eitrað fyrir Skripal-feðginunum í Salisbury verði dregnir fyrir dóm.
May greindi frá þessu þegar tilkynnt var um fund þeirra Pútín í Osaka í Japan og virðist sem enginn sáttahugur sé í henni í garð Rússa á síðustu dögunum í embætti forsætisráðherra.
Þegar hún ræddi við blaðamenn áður en hún lagði af stað til Japan sagði hún að Bretar vildu gjarnan eiga í betri samskiptum við Rússa en til þess verði þeir að hætta að koma fram við önnur ríki líkt og þeir geri. Til að mynda líkt og gerðist á götum úti í Salisbury.
Eitrað var fyrir Sergei Skripal og Júlíu dóttur hans á götu úti í Salisbury í fyrra og síðar lést Dawn Sturgess af völdum eitrunarinnar. Tveir menn, sem talið er að starfi fyrir rússnesku leyniþjónustuna, Anatolií Chepiga og Alexander Mishkin, eru grunaðir um verknaðinn.