„Ég sit hérna bara með viftuna beint fyrir framan mig. Maður fer bara ekkert út,“ segir Eva Morgan, hálfíslenskur og hálffranskur íbúi Montpellier í Suður-Frakklandi.
Í Frakklandi og víðar í Evrópu gengur nú yfir mikil hitabylgja með heitu lofti frá Afríku, en franskt hitamet féll í bænum Carpentras í dag, sem er í um tveggja klukkustunda fjarlægð frá Montpellier. Hiti í Carpentras mældist 44,3 stig.
„Það er bara verið að segja fólki að vera annað hvort heima hjá sér eða á stöðum þar sem loftkæling eða viftur eru til staðar, og ekki að fara á ströndina fyrir fjögur í eftirmiðdaginn,“ segir Eva í samtali við mbl.is.
Spurð hvort vinnustöðum hafi verið lokað líkt og sumum skólum á svæðinu segist Eva ekki vita til þess og heldur að veitingastaðir verði opnir, enda mikið af ferðamönnum á svæðinu.
Þá hefur hún ekki heyrt fréttir af fólki í hættu vegna ofhitnunar, en segir að hugur viðbúnaðaraðila sé hjá eldri borgurum og elliheimilum.