Sundlaugum lokað þrátt fyrir hitabylgju

Aðgangur að sundlaugum jaðrar nú við mannréttindi í hitabylgju á …
Aðgangur að sundlaugum jaðrar nú við mannréttindi í hitabylgju á borð við þá sem gengið hefur yfir Evrópu síðustu daga. AFP

Þrátt fyrir fordæmalausa hitabylgju sem geisar í Evrópu, hikuðu sundlaugarverðir í borginni Grenoble í Frakklandi ekki við að loka sundlaugum í bænum eftir að hópur kvenna hætti sér í laugina í burkini, sérstöku sundbikiníi sem er hannað fyrir múslimskar konur.

Konurnar fóru tvisvar í laugarnar, en uppátækið var í boði mannréttindasamtakanna Alliance Citoyenne sem vildi storka lögum borgarinnar sem banna heilgalla sem sundfatnað.

Í yfirlýsingu frá borgaryfirvöldum segir að sundlaugarverðirnir hafi óskað eftir að laugunum yrði lokað þar sem „þeir eru til staðar til að viðhalda öryggi og slíkt [gangi] ekki þegar þeir þurfa að hafa áhyggjur af fólkinu“. Bætt var við að yfirvöld ynnu að því að fá „jákvæða“ niðurstöðu í málið, hvað svo sem það þýðir.

Uppákoman er sú nýlegasta í röð atvika þar sem lögum gegn andlits- og líkamshulum er mótmælt.

Búrkubann við lýði, en hijab sleppur

Hvergi í Evrópu búa jafnmargir múslimar og í Frakklandi, en þeir eru þó aðeins um 6% íbúa. Árið 2011 varð landið það fyrsta í álfunni til að banna blæjur sem hylja allt andlitið. Lagasetningunni var skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu sem staðfesti lögmæti laganna árið 2014 og hafnaði þeim rökum að lögin gengu gegn stjórnarskrárbundnum ákvæðum um trúfrelsi.

Fyrr á árinu neyddist franska íþróttavöruverslunin Decathlon til að hætta við fyrirhugaða sölu á hlaupa-hijab eftir háværa gagnrýni. Hijab, ólíkt búrkum, hylur þó ekki andlitið heldur aðeins hár og háls, en hugtökunum er gjarnan ruglað saman og er hugtakið burkini ekki til að bæta úr skák, enda hylur sundfatnaðurinn ekki andlit.

Konurnar sem um ræðir eru sjö, en þeir vilja að yfirvöld slaki á reglum um klæðaburð sem skikka karla til að klæðast sundskýlum og konur til að klæðast annaðhvort bikiníi eða sundbol.

Sitt sýnist hverjum en Eric Ciotti, þingmaður repúblikana á franska þinginu, sagði á Twitter að burkini ætti ekki heima í Frakklandi, landi þar sem konur væru jafnréttháar körlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert