Sex ára sorpdeilu lokið

Deilt hefur verið um rusl sem sent var til Filippseyja …
Deilt hefur verið um rusl sem sent var til Filippseyja fyrir mistök í sex ár. Það kom til hafnar í Kanada í dag. AFP

Skip með 69 gáma af rusli kom til hafnar skammt utan Vancouver í Kanada í dag. Skipið sigldi frá Filippseyjum, en þar hafði ruslið verið í gámunum frá árinu 2013. Segir í frétt Reuters að þetta bindi enda á deilu milli ríkjanna sem fékk forseta Filippseyja, Rodrigo Duterte, til þess að hóta stríði á hendur Kanada.

Árin 2013 og 2014 var siglt með 69 gáma af endurvinnanlegu plasti frá Kanada til Filippseyja, en þegar þangað var komið kom í ljós að almennt sorp var að finna í gámunum. Ruslið varð fljótt að deilu milli ríkjanna þar sem filippseysk stjórnvöld höfnuðu því að taka við sorpinu.

Sorpið hafði verið merkt vitlaust og dæmdi dómstóll í Filippseyjum árið 2016 að flytja yrði sorpið aftur til Kanada. Enn reyndist erfitt að ná samkomulagi við kanadísk stjórnvöld um að þau myndu taka við því. Hótaði Duterte stríði á hendur Kanada og að allir fulltrúar Filippseyja yrðu kallaðir heim frá landinu.

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja.
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. AFP

Hugðist sturta sorpinu í sjóinn

Forseti Filippseyja gaf síðan kanadískum yfirvöldum 15. maí þessa árs til þess að sækja ruslið, en þegar Kanada tókst ekki að hirða sorpið innan frestsins skipaði Duterte ríkisstjórn sinni að ganga til samninga við skipafélag um að sigla með sorpið í átt að Kanada og sturta því í sjóinn innan kanadískrar lögsögu, að því er fram kemur í frétt Global News.

Tveimur tímum eftir tilkynningu Duterte barst tilkynning frá Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, um að samningur hafði verið gerður við Bollore Logistics Canada um að koma sorpinu frá Filippseyjum.

Sorpið verður nú nýtt sem eldsneyti til rafmagnsframleiðslu í Burnaby í Kanada.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. AFP

Vilja senda til baka 3.000 tonn af plasti

Sorp hefur orðið mikið deilumál innan ríkja í Suð-Austur Asíu sem til margra ára hafa tekið við sorpi frá þróaðri ríkjum gegn greiðslu og hafa umhverfisverndarsinnar í þessum heimshluta biðlað til stjórnvalda um að hafna frekari sendingum.

Seinast í maí krafðist Malasía að Bandaríkin, Japan, Frakkland, Kanada, Ástralía og Bretland taki við þrjú þúsund tonnum af plasti sem þau hafa sent til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert