Á fundi G20-ríkjanna, 19 stærstu iðnríkja heims og Evrópusambandsins, í Osaka í Japan samþykktu 19 ríki Parísarsamkomulagið að undanskildum Bandaríkjunum. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, vildi að gengið væri enn lengra í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum.
„Við verðum að forðast að taka skref aftur á bak. Við verðum að ganga mun lengra,“ sagði Macron eftir samningaviðræður ríkjanna um orðalag samkomulagsins. Parísarsamkomulagið skyldar ríkin til að grípa til aðgerða og sporna gegn loftslagsbreytingum meðal annars með því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
Tveggja daga leiðtogafundur G20-ríkjanna hófst í Osaka í Japan í gær. Aðildarríkin eru Bandaríkin, Kanada, Brasilía, Argentína, Bretland, Frakkland, Ítalía, Þýskaland, Indónesía, Japan, Kína, Tyrkland, Ástralía, Indland, Mexíkó, Rússland, Sádi-Arabía, Suður-Afríka og Suður-Kórea, auk Evrópusambandsins.