Auðkýfingarnir vilja borga hærri skatt

Ian Simmons og Liesel Pritzker Simmons sögðu í viðtali við …
Ian Simmons og Liesel Pritzker Simmons sögðu í viðtali við BBC að þau vildu borga hærri skatta.

Liesel Pritzker Simmons, sem tilheyrir einni af ríkustu fjölskyldum vestanhafs, líður ekki vel með auðæfin og biður um að fá að greiða hærri skatta. „Það er kominn tími fyrir okkur sem höfum notið efnahagslegrar velgengni eða heppni að gefa meira af okkur í þágu almannahags og framtíðarinnar,“ segir hún í samtali við BBC.

Fjölskylda Pritzker Simmons byggði Hyatt-hótelkeðjuna og lék hún í nokkrum Hollywood-kvikmyndum sem barn, meðal annars í A Little Princess, sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna, og Air Force One.

„Besta leiðin fyrir okkur sem erum í þessum lánsama hópi til þess að gefa meira af okkur er að óska eftir hærri sköttum,“ segir Pritzker Simmons sem játar að þetta sé heldur óhefðbundið viðhorf.

Þó nokkrir frambjóðendur Demókrataflokksins vori ekki hræddir við að boða …
Þó nokkrir frambjóðendur Demókrataflokksins vori ekki hræddir við að boða hærri skattlagningu á þá auðugu í síðustu kappræðum. AFP

Hún, ásamt hópi auðugra Bandaríkjamanna, sendu frá sér opið bréf í vikunni þar sem þau útskýra hvers vegna þau vilja að greiða meira í skatt og skoruðu jafnframt á frambjóðendur til embættis forseta Bandaríkjanna að hækka skattlagningu á auðugt fólk.

Efnahagslegar og félagslegar aðstæður ungra og fátækra eru hrikalegar í Bandaríkjunum, að sögn Pritzker Simmons. „Við höfum ekki öll svörin, en við getum hjálpað. Setjið á okkur auðlegðarskatt – það er siðferðisleg og þjóðleg skylda okkar að afhenda stærri hluta af auðæfum okkar.“

Soros og Disney í hópnum

Hún segist hafa rætt við eiginmanninn, Ian Simmons, sem erfði mikil auðæfi, að tjá sig opinberlega um þessa skoðun sína. Þau hafi síðan rætt þetta við aðra sem þau vissu væru sömu skoðunar.

Fjárfestirinn George Soros, Chris Hughes, meðstofnandi Facebook, og Abigail Disney, erfingi Disney-veldisins, voru meðal þeirra sem tóku þátt. „Þetta gætu hafa verið fleiri,“ segir Simmons. „En við vildum bara fá nógu mörg nöfn til þess að hrinda umræðunni af stað.“

Hjónin segjast ekki bundin við einhverja eina lausn en nefna tillögu um auðlegðarskatt sem nemur tveimur sentum á hvern bandaríkjadal yfir 50 milljónir dala, jafnvirði 6,2 milljarða íslenskra króna.

Pritzker Simmons er úr fjölskyldunni sem byggði Hyatt hótelkeðjuna.
Pritzker Simmons er úr fjölskyldunni sem byggði Hyatt hótelkeðjuna. AFP

„Óþægileg umræða“

Fram kemur í umfjölluninni að hópur reiðra höfunda skoðanapistla og Twitter-notenda hafi verið fljótir til þess að gagnrýna bréf hópsins fyrir að vera milljarðamæringar með samvisku og forréttindahópur með afvegaleiddan velvilja.

„Þetta er óþægileg umræða, við áttum okkur á því,“ segir Pritzker Simmons sem kveðst ekki hafa áhuga á því að verða einhver talsmaður hópsins eða fá sérstaka viðurkenningu, heldur vildi hún koma skilboðum til stjórnmálamanna.

„Við vildum bara segja opinberlega að það er ekki þörf á að veigra sér frá skattabreytingum vegna ótta við að þessi hópur fólks bregðist illa við,“ útskýrir Pritzker Simmons.

Gagnrýnisraddir hafa meðal bent á að þessum einstaklingum er heimilt að senda meira fé til skattayfirvalda að vild. „Það nær ekki tilganginum,“ segir Simmons. „Að senda fjármálaráðuneytinu ávísun er bara góðgerðarstarfsemi. Það er ekki hægt að mæta þessum samfélagsáskorunum með tilviljanakenndum gjöfum ríkra einstaklinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert