Donald Trump, forseti Bandaríkjanna og Kim Jung-un leiðtogi Norður-Kóreu, hittust nú á áttunda tímanum á hlutlausa svæðinu milli Kóreuríkjanna tveggja. Moon Jae-in, leiðtogi Suður-Kóreu er einnig með þeim. Eftir það gekk forsetinn formlega yfir landamæri ríkjanna tveggja.
„Ég nýt þess að vera með þér,“ sagði forsetinn á blaðamannafundinum við Kim. Trump fullyrti að fjölmiðlaumfjöllun um samskipti ríkjanna tveggja hafi verið of neikvæð og ekki gefið upp rétta mynd af þeim. Hann sagðist jafnframt vera stoltur af því að hafa tekið skrefið inn í Norður-Kóreu.
„Ég er sannfærður um að samskipti okkar munu hjálpa okkur að komast yfir þær hindranir sem standa í vegi okkar,“ sagði Kim Jung-un á blaðamannafundinum. Hann sagði samskipti þeirra tveggja vera „frábær“.
Trump sagði á blaðamannafundinum að hann hafði rætt við Kim um að leysa úr haldi bandaríska ríkisborgara sem væru í Norður-Kóreu. Hann nefndi ekki á nafn að þeir hafi rætt kjarnorkuvopn sem Norður-Kórea býr yfir. Á síðustu árum hefur Kim gert lítið til að dylja þann metnað sinn að þróa langdrægar eldflaugar sem geti ráðist á borgir í Bandaríkjunum og herstöðvar við Kyrrahafið.
Trump er þar með fyrsti forseti Bandaríkjanna sem heimsækir Norður-Kóreu.
Fundurinn er sögulegur fyrir margra hluta sakir. Fundaboðið er einnig sagt óvenjulegt því Trump sendi óformlegt boð til Kim og spurði hann hvort þeir ættu ekki að hittast þar sem hann væri á leið frá Osaka í Japan til Seúl í Suður-Kóreu. „Bara til að segja halló og heilsast.“
Með forsetanum á fundinum var einnig dóttir hans, Ivanka Trump og eiginmaðurinn hennar Jared Kushner sem eru bæði titluð sem ráðgjafar Hvíta hússins.
Stjórnálafræðingar sem rýndu í líkamsbeitingu leiðtoganna segja að Kim hafi virst frekar afslappaður og að vel hafi farið á með þeim.