Eftir fordæmalausa hitabylgju sem gengið hefur yfir vesturhluta Evrópu síðustu daga er von á lægri hitatölum. Á Spáni glíma slökkviliðsmenn enn við afleiðingar hitabylgjunnar þar sem miklir skógareldar geisa og hitinn hefur hæst farið upp í 41,9 gráður.
Skógareldar hafa einnig kviknað í suðurhluta Frakklands og hafa bændur á vínekrum misst hluta uppskeru sinnar. Hitamet féll í Frakklandi á föstudag þegar hiti fór í 45,9 stig. Veðurstofa Frakklands gaf út rauða viðvörun á fjórum svæðum, en viðvörunin var sérstaklega búin til fyrir hitabylgjuna.
Með metinu slóst Frakkland í hóp sex annarra Evrópuríkja þar sem hiti hefur mælst yfir 45 gráður á einhverjum tímapunkti, en það eru Búlgaría, Portúgal, Ítalía, Spánn, Grikkland og Norður-Makedónía.
Hitamet féll einnig í Þýskalandi þar sem hiti hefur aldrei mælst hærri í júní, 38,9 gráður, og í Róm bað páfi fyrir pílagrímum á Péturstorginu.
Hitabylgjan, sem stafaði af heitu lofti sem kom frá Afríku, varði í sex daga og samkvæmt opinberum tölum hafa fjórir látið lífið vegna hennar í Frakklandi, tveir á Ítalíu og tveir á Spáni. Hinir látnu eru meðal annarra 17 ára vinnumaður við uppskeru, 33 ára þakviðgerðarmaður og 72 ára heimilislaus maður.
Spáð er að hitinn muni lækka um allt að tíu stig næstu daga í Frakklandi, en Þjóðverjar og Ítalir verða að bíða fram á þriðjudag eftir því að hitinn lækki, en von er á regnstormi á Ítalíu á þriðjudag.