Sló tvær flugur í einu höggi

Marc Lanteigne, sérfræðingur á sviði efnahagsmála Kína og stjórnmála Austur-Asíu, …
Marc Lanteigne, sérfræðingur á sviði efnahagsmála Kína og stjórnmála Austur-Asíu, segir fund þeirra Kims og Trumps benda til þess að jákvæðar framtíðarhorfur eru í samskiptum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. AFP

„Þessi fundur sýnir að Trump vill leggja áherslu á að í heild hafi ferð hans um Asíu verið árangursrík þrátt fyrir að ekki hafi tekist að semja við Kína á fundi G20-ríkjanna í Osaka,“ segir dr. Marc Lanteigne, lektor hjá Háskólanum í Tromsö, í samtali við mbl.is um fund forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, og leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong un, á hlutlausasvæðinu milli Kóreuríkjanna tveggja í dag.

Lanteigne, sem er sér­fræðing­ur á sviði efna­hags­mála Kína og stjórn­mála Aust­ur-Asíu, telur Trump hafa náð tveimur flugum í einu höggi með fundinum. Hann segir fundin jákvæðan en á sama tíma hafi forsetanum tekist að beina sviðsljósinu frá þeim atriðum utanríkisstefnu ríkisstjórnar sinnar sem hafa misheppnast.

Um útkomu fundarins segir Lanteigne að yfirlýsingar leiðtoganna um að viðræðum ríkjanna um kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreu verði haldið áfram sé jákvæð vísbending um stöðugleika í samskiptum ríkjanna. Hins vegar er enn beðið eftir því að efnislegur árangur í kjarnorkuafvopnun náist.

Yfirlýsing var gefin út í dag um að yfirvöld í Bandaríkjunum og Norður-Kóreu munu skipa viðræðuteymi um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu.

„Núna er rætt um mögulega opinbera heimsókn Kim til Washington sem væri sögulegt, fordæmalaust og enn eitt merki um að ríkisstjórnir ríkjanna séu viljugar til þess að halda viðræðum áfram,“ segir hann. Á fundinum bauð Trump Kim að koma í heimsókn í Hvíta húsið. 

Marc Lanteigne.
Marc Lanteigne. Ljósmynd/Rósa Braga

Raunverulegur vilji Norður-Kóreu

„Það sem hins vegar skiptir máli er hvort Norður-Kórea sé í raun reiðubúið til þess að ræða kjarnorkuafvopnun af alvöru og hverskonar tímamörk ríkið geti sætt sig við, auk þess hver skilyrði þess verða. Norðurkóresk yfirvöld segja skýrt að skilyrði fyrir því að afvopnun geti hafist ef þvingunaraðgerðum verði aflétt og viðskipti hefjist að nýju,“ útskýrir Lanteigne.

Þetta er þriðji fundur leiðtoganna og endaði sá síðasti sem var í Hanaoi í Víetnam ekki vel. Lanteigne bendir á að sá fundur leiddi ekki til samninga og að allt bendi til þess að samningaviðræður um útfærsluatriði mögulegs samnings ríkjanna verði mjög flókin. Fyirséð er að viðræður ríkjanna verði langdregnar og munu líklega fara fram án vitneskju almennings.

Líklega ekki skipulagt á síðustu stundu

Það er ólíklegt að fundur Trumps og Kim hafi verið skipulagður með litlum fyrirvara að mati Lanteigne. „Það er ólíklegt að þetta hafi verið komið á laggirnar á síðustu stundu eins og Trump hefur gefið í skyn. Ef tekið er tillit til þeirra öryggisráðstafanna og annarrar skipulagningar sem slíkur fundur krefst.“

„Það þurfti að vera búið að ganga úr skugga um að Kim Jong un myndi mæta. Hefði hann [Kim] ekki mætt eða einhverjir erfiðleikar orðið á síðustu stundu hefði það orðið vandræðalegt fyrir Bandaríkin,“ bætir hann við.

Beinir sviðsljósinu annað

Þá segir Lanteigne að með fundinum hafi Trump beint samfélagsumræðunni frá þeim atriðum í utanríkisstefnu hans sem hafa mistekist. Í því samhengi bendir hann á samskipti Bandaríkjanna við Venesúela. 

„Maduro er enn forseti Venesúela þrátt fyrir þrýsting Bandaríkjanna, samskiptin milli Bandaríkjanna og Mexíkó og Mið-Ameríku um landamæramálið eru í besta falli stirð. Íran hefur ekki gefið eftir og orðið við kröfum Bandaríkjanna og viðræður við Kína um viðskipti virðast aðeins boða skammtímalausnir.“

„Þetta var augljóslega hannað til þess að draga athygli að nýrri nálgun Trumps gagnvart Norður-Kóreu með hliðsjón af komandi kosningum. Hvort fundurinn hafi bara verið til sýnis ræðst af því hvað gerist næst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert