Þúsundir umhverfissinna í Madríd á Spáni létu ekki hitasvækjuna aftra sér við að krefjast þess að áfram verði í gildi ströng takmörk á umferð bensín og dísilknúinna ökutækja í miðborginni. Nýkjörinn borgarstjóri hyggst afnema takmörkun forvera síns í embætti á bílaumferð sem er í gildi í borginni. BBC greinir frá.
Bannið var sett til að sporna gegn mengun í borginni af völdum ökutækjanna og stuðla að betra loftgæði í borginni. Borgarstjórinn, José Luis Martínez-Almeida, tók við embætti 15. júní síðastliðinn og á morgun 1. júlí fellur bannið úr gildi. Hann segir það gert meðal annars með hag borgarbúa að leiðarljósi. Þetta var eitt af kosningaloforðum hans.
Á spjöldum mótmælenda mátti meðal annars sjá slagorð á borð við „ég vil geta andað“. Mótmælendur lýsa áhyggjum af þessum aðgerðum og óttast einnig að nýi borgarstjórinn muni veikja fremur en styrkja reglugerðir um umhverfisvernd.
'Madrid Central' protest: Thousands oppose suspension of anti-pollution plan https://t.co/weoSIDy4Cz
— BBC News (World) (@BBCWorld) June 29, 2019