„Vorum vinir fyrir lífstíð“

„Svona vorum við!“ Bítlarnir John Lennon og Paul McCartney fisléttir …
„Svona vorum við!“ Bítlarnir John Lennon og Paul McCartney fisléttir í Abbey Road-hljóðverinu 1968. Að sjá myndina færði McCartney mikla gleði. Ljósmynd/Linda McCartney

„Þetta erum við John í Abbey Road [hljóðverinu] ekki svo ýkja löngu áður en Bítlarnir lögðu upp laupana; það voru endalok sambands okkar og þegar til kom þá var viðskilnaðurinn frekar bitur – og erfiður við að eiga. Orðrómur komst á kreik þess efnis að okkur John kæmi ekki saman, við værum erkifjendur, að allt væri þungt og ljótt. Það er svo undarlegt að maður fer stundum að trúa einhverju, sé það sagt nægilega oft. Þess vegna hugsaði ég með mér: Já, það er synd, þú veist, að okkur skyldi ekki semja betur. Þess vegna er fólgin blessun í þessari ljósmynd. Svona vorum við: Þetta er ástæðan fyrir því að við tengdum svo vel, annars hefðum við aldrei getað unnið saman í allan þennan tíma. Myndin endurspeglar samband okkar meðan við vorum að vinna við lagasmíðar og oftar en ekki vorum við saman, satt best að segja. Ég er að skrifa eitthvað – mögulega laglínu eða eitthvað; það gæti hafa verið fyrir Abbey Road – og það er yndislegt, vegna þess að John er á kafi í ferlinu líka og við erum á einu máli, og við erum að hlæja að einhverju. Það gaf mér mikið að sjá gleðina á milli okkar hérna vegna þess að það minnir mig á það að pælingin um það að við værum ekki vinir er tóm steypa. Við vorum vinir fyrir lífstíð, samband okkar var afgerandi sérstakt.“

Með þessum orðum lýsir Paul McCartney meðfylgjandi ljósmynd í breska blaðinu The Guardian en það var eiginkona hans heitin, Linda, sem tók hana. Tilefnið er sýning á verkum Lindu, sem var lærður ljósmyndari, sem opnuð verður í Kelvingrove-listasafninu í Glasgow á fimmtudaginn í næstu viku.

McCartney segir sama máli gegna um hina Bítlana, jafnvel þegar þeir voru annað veifið gramir hver út í annan. „Þá minnti fólk mig á að þannig væru fjölskyldur, svona lagað gerist. Vini greinir á. Um leið og við byrjuðum að vinna að tónlist þá smullum við saman, höfðum yndi af hljóðinu sem við sköpuðum saman, nutum þess að spila hver með öðrum. Við höfum unnið saman í meira en tíu þúsund klukkustundir gegnum árin og þessi gamli andi tók sjálfkrafa yfir. Allur ágreiningur var fljótt jafnaður.“

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert