Áfram rautt í Rauma – gliðnun 6 sm

Þar sem hrikaleg fjöllin standa ber. Snjórinn í óstöðugri hlíð …
Þar sem hrikaleg fjöllin standa ber. Snjórinn í óstöðugri hlíð Mannen sýnir glögg merki um nýlegt grjóthrun. Mannen og Veslemannen rumska nú æ fyrr á árinu og er þetta í fyrsta sinn sem NVE boðar rautt hættustig áður en ágústmánuður rennur upp. Ljósmynd/Vatna- og orkumálastofnun Noregs, NVE

„Fjallið verður æ óstöðugra og það fer að lokum niður. Hræringarnar verða sífellt meiri og þær eru farnar að byrja fyrr hvert ár,“ segir Lars Harald Blikra, sviðsstjóri hjá Norsku vatna- og orkumálastofnuninni NVE, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í kvöld.

Tilefnið eru hræringar í klettabeltinu Veslemannen (Litla manninum) utan á fjallinu Mannen í Rauma í Mæri og Raumsdal en síðan 2014 hafa Mannen og Veslemannen bylt sér æ meir og orðið tilefni fjöldamargra rýminga íbúabyggðar næst fjallinu, þar á meðal í gær þegar hættustig á svæðinu var fært upp á rautt og íbúum gert að yfirgefa heimili sín í tólfta skiptið síðustu ár.

Blikra segir töluvert grjóthrun hafa verið úr fjallinu síðasta sólarhringinn og mælist gliðnun efst í Veslemannen nú sex sentimetrar miðað við sólarhring og 0,8 sentimetrar fremsta hluta bergsins.

Regnið leysir úr læðingi

Hræringar í Mannen og Veslemannen fara mikið eftir úrkomu. Rigni mikið á svæðinu, eins og nú hefur gert síðustu daga, eykst óstöðugleikinn og bergið tekur að skríða til. Kólni í veðri eykur það stöðugleika bergsins og hræringar hætta þar sem vatn hættir að seytla um sprungur. Nú spáir norska veðurstofan reyndar ekki bara kólnandi veðri í Mæri og Raumsdal heldur frosti á morgun og segist Blikra þá ekki reikna með að hættustigið verði rautt öllu lengur.

Skýringarmynd frá NVE sem sýnir klettabeltið Veslemannen, þann hluta Mannen …
Skýringarmynd frá NVE sem sýnir klettabeltið Veslemannen, þann hluta Mannen sem nú bærir hvað mest á sér. Á svæðinu rétt til hægri við miðja mynd er nú mestur órói en líklegt að kólnandi veður næstu daga muni knýja bergrisann til kyrrðar, um sinn. Ljósmynd/Norska vatna- og orkumálastofnunin, NVE

Þróun þessara hræringa allra vekur óneitanlega athygli. Mannen og Veslemannen hafa yfirleitt rumskað mjög árstíðabundið, alla jafna frá hausti. Hræringarnar núna eru hins vegar þær fyrstu sem kalla á rautt hættustig áður en ágúst rennur upp og er þetta þar með í fyrsta sinn sem svæðið er rýmt fyrr á árinu en það.

Lars Olav Hustad, bæjarstjóri í Rauma, segir í samtali við dagblaðið VG í kvöld að fyrsta rýming ársins komi býsna snemma sem sé áhyggjuefni. Hann segir íbúana, sem þurftu að yfirgefa heimili sín seint í gærkvöldi, hafa það ágætt, ástandið þekki þeir mætavel og fari þegar boð berast um slíkt.

Tjaldstæðið yfirfullt

Sá böggull fylgir þó skammrifi að þegar rýmingar eiga sér stað er íbúunum, oftast um tíu manns, komið fyrir á tjaldstæði í nágrenninu þar til þeim er óhætt að snúa til síns heima á ný. Nú er ferðamannatímabilið nærri hápunkti sínum og mega þröngt sáttir sitja á tjaldstæðinu. Segir Hustad bæjarstjóri ljóst að sveitarfélagið þurfi að leita annarra lausna þegar byggðin við fjallsræturnar er rýmd.

Vatna- og orkumálastofnunin heldur úti upplýsingasíðu um Mannen þar sem birt er ítarleg tölfræði yfir hræringar í berginu auk ljósmynda sem sýna breytingar á lögun fjallsins eftir því sem grjóthrun eykst úr því.

TV2 (hér má sjá myndskeið TV2 af grjótskriðu úr fjallinu í dag)

Adresseavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert