Norwegian skipti farangrinum út fyrir lax

Laxinn byrjar að streyma að Norwegian-vélinni eftir að fyrri seinkunin …
Laxinn byrjar að streyma að Norwegian-vélinni eftir að fyrri seinkunin hafði verið boðuð. Næss gladdist í fyrstu yfir að norskur laxútflutningur stæði með blóma, en sú gleði varð skammvinn þegar tilkynnt var að vélin væri allt of þung, tveir farþegar yrðu að fara frá borði og 30 töskur, sem urðu 50 þegar upp var staðið. Ljósmynd/Gaute Næss

„Hvernig gat Norwegian gert þetta? Tekið lax fram fyrir farþegana og eyðilagt fríið fyrir fullorðnum jafnt sem börnum?“ spyr fjölskyldufaðirinn Gaute Næss frá Bærum rétt utan við Ósló í viðtali við ferðavefmiðilinn flysmart24.no en fjöldi norskra fjölmiðla hefur tekið málið upp í dag.

Á laugardaginn voru Næss, sölu- og markaðsstjóri hjá M-Brain, og fjölskylda hans, sambýliskonan Cathrine Storhaug og dæturnar Oda og Emma, 11 og sex ára, áhyggjulaus á Gardermoen-flugvellinum utan við Ósló á leið í langþráð frí til Las Palmas á Gran Canaria með norska flugfélaginu Norwegian.

Þá kom fyrsta bakslagið. Tilkynnt var um hálftíma seinkun á fluginu um hátalarakerfið. Eftir nokkra bið ók flugvélin inn á flughlaðið og virtist horfa til betri vegar á ný. „Svo sé ég að þeir byrja að lesta farangurinn,“ segir Næss frá. „Skyndilega koma fleiri bretti af laxi sem þeir byrjuðu að lesta líka. „En gaman,“ hugsaði ég, „norskur laxútflutningur blómstrar.“.“

Hann segist hafa tekið mynd af laxfarminum að gamni sínu og ekki leið á löngu uns farþegum var boðið að ganga um borð.

Svo kom næsta bakslag

„Flugstjórinn tilkynnti að vélin væri allt of þung til að hefja sig til flugs. Þeir yrðu að létta hana um 30 ferðatöskur og tveir farþegar yrðu auk þess að fara frá borði,“ segir Næss.

Þegar á hólminn var komið reyndust 30 töskur ekki nóg og voru 20 í viðbót fjarlægðar úr vélinni áður en haldið var til Las Palmas eftir myndarlega seinkun í viðbót. Farþegunum var lofað að farangurinn færi þegar með næstu vél hálftíma síðar og skilaði sér á áfangastað örskömmu á eftir fyrri vélinni.

Til að falast eftir að fá að nota laxamynd Næss hafði mbl.is samband við hann til Las Palmas í kvöld. „Já já, gjörðu svo vel,“ var svarið. En hvernig fór farangursmálið? „Hann kom klukkan 15 í dag, tveimur sólarhringum eftir að við flugum frá Ósló,“ segir Næss og hafi fjölskyldan ekki haft úr miklu fataúrvali að moða fyrstu tvo daga frísins auk þess sem nauðsynleg blóðþrýstingslyf Næss hafi einnig verið utan seilingar.

Taka laxfarm fram yfir farþega með vitund og vilja

„Þetta er náttúrulega galið,“ segir hann, „Norwegian tekur með vitund og vilja laxfarm fram yfir farþega sína sem eru á leið í sumarfrí,“ og er augljóst að ánægjan með flugfélagið norska er takmörkuð, en það og forstjórinn Bjørn Kjos hafa oftsinnis vakið úlfúð meðal Norðmanna, svo sem hér um árið þegar samið var við taílenskar áhafnir flugfélagsins, sem sinntu flugleiðum í Evrópu og Bandaríkjunum, um að þær fengju greidd taílensk laun.

Í október 2013 komst norska ríkisútvarpið NRK í ráðningarsamninga taílensks starfsfólks Norwegian og afhjúpaði þá staðreynd að grunnlaun þess voru 2.850 norskar krónur á mánuði, tæpar 42.000 íslenskar á gengi dagsins í dag. Fyrir tólf klukkustunda flugið milli Óslóar og Bangkok fékkst þó 200 króna aukagreiðsla, heilar 2.933 íslenskar.

Kjos sat við sinn keip þar til bandarísk flugmálayfirvöld fengu veður af málinu og hótuðu því að ekki ein einasta vél Norwegian fengi að lenda á bandarískum flugvelli yrði kjörum áhafnanna ekki kippt í liðinn enda um grímulaus félagsleg undirboð að ræða.

Bjørn Kjos, forstjóri Norwegian-flugfélagsins. Ekki hafa hann og félag hans …
Bjørn Kjos, forstjóri Norwegian-flugfélagsins. Ekki hafa hann og félag hans ávallt siglt lygnan sjó þegar kemur að almenningsálitinu svo sem í hinu annálaða máli taílensku áhafnanna sem NRK fletti ofan af í október 2013. AFP

Tonje Næss, upplýsingafulltrúi Norwegian og vonandi ekki frænka Gaute þrátt fyrir nafnið, sagði stórmistök hafa átt sér stað þegar Dagbladet ræddi við hana: „Farangur farþeganna á alltaf að hafa forgang við lestun hjá okkur, en í þessu tilfelli var þeirri reglu ekki fylgt,“ svarar hún Dagbladet í tölvupósti. „Við munum auðvitað fylgja þessu máli eftir og tryggja að svona lagað gerist ekki aftur. [...] Við höfum fullan skilning á að þetta mál hafi vakið gremju farþega okkar.“

Umfjöllun annarra norskra miðla en þegar nefnd:

Dagbladet

Aftenposten

VG

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert