Bandaríkjastjórn mun „aldrei leyfa“ Írönum að þróa kjarnavopn, segir í yfirlýsingu sem Hvíta húsið sendi frá sér í dag, eftir að stjórnvöld í Teheran staðfestu að þau hefðu nú yfir meira af auðguðu úrani að ráða en þeim er heimilt samkvæmt kjarnorkusamningnum frá 2015, eða meira en 300 kílóum.
Donald Trump sagði af þessu tilefni við blaðamenn að Íranar væru að „leika sér að eldi“ og í yfirlýsingu Hvíta hússins kom fram að hámarksþrýstingi yrði haldið að stjórnvöldum í Persaflóaríkinu þar til leiðtogar þess skipti um stefnu.
„Bandaríkin og bandamenn þeirra munu aldrei leyfa Íran að þróa kjarnorkuvopn,“ segir í yfirlýsingunni sem Stephanie Grisham, nýr fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, sendi frá sér. Því var bætt við að það hefðu verið mistök, er kjarnorkusamningurinn var undirritaður árið 2015, að veita Írönum heimild til þess að auðga nokkurt úran.
Frá því Bandaríkin ákváðu að draga sig frá kjarnorkusamkomulaginu á síðasta ári og byrjuðu að beita Írana efnahagsþvingunum, hafa samskipti ríkjanna tveggja farið stigversnandi.
Stjórnvöld í Íran hafa reynt að setja pressu á önnur aðildarríki samkomulagsins, Bretland, Kína, Frakkland, Þýskaland og Rússland, um að bjarga samkomulaginu og sú ákvörðun að fara fram úr leyfilegum mörkum auðgaðs úrans, eins og gerst hefur, er liður í því.
Íranar hafa jafnframt hótað að brjóta fleiri skilmála samkomulagsins, vinni ríkin sem standa að samkomulaginu ekki með þeim í að dempa áhrifin af efnahagsþvingunum Bandaríkjamanna á hendur þeim.
Leiðtogar hinna ríkjanna hafa í dag lýst yfir áhyggjum af þróun mála. Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, sagði að bresk stjórnvöld hefðu þungar áhyggjur og sagði að Íran þyrfti að halda sig innan marka kjarnorkusamkomulagsins.
Sergei Ryabkov, varautanríkisráðherra Rússlands, lét hafa eftir sér við þarlenda fjölmiðla í dag að hann harmaði þá ákvörðun Írana að auðga úran umfram heimild, en að ákvörðunin væri þó skiljanleg af hálfu Írana í ljósi nýliðinna atburða og þess „fordæmalausa þrýstings“ sem bandarísk stjórnvöld væru að beita.