Alexei Navalny, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar, var í dag dæmdur í tíu daga fangelsi af dómstóli í Moskvu fyrir að taka þátt í mótmælum til stuðnings blaðamanninum Ivan Golunov 12. júní síðastliðinn.
„Tíu dagar fyrir að mótmæla lögleysunni,“ skrifaði Navalny á Twitter-síðu sína eftir að dómurinn var kveðinn upp, en hann var einn af yfir fjögur hundruð mótmælendum sem voru handteknir í kjölfar friðsamlegra mótmæla til stuðnings Golunov í síðasta mánuði.
Rússnesk stjórnvöld féllu frá ákæru á hendur Golunov og slepptu honum úr haldi í kjölfar mótmælanna.
Navalny er ekki ókunnur því að dvelja í fangelsi fyrir það eitt að taka þátt í mótmælum í Rússlandi, en í fyrra fékk hann tvo dóma fyrir mótmæli gegn stjórnvöldum og sat inni í samtals 50 daga vegna þeirra.