Hver er hinn nýi leiðtogi ESB?

Ursula von der Leyen, tilvonandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ursula von der Leyen, tilvonandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Ursula von der Leyen hefur verið tilnefnd til forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, fyrst kvenna. Embættið er annað tveggja valdamestu embætta sambandsins ásamt forseta leiðtogaráðsins.

Ursula þessi er flokksbundin Kristilega demókrataflokknum þýska, flokki Angelu Merkel kanslara. Hún hefur gegnt embætti varnarmálaráðherra Þýskalands frá árinu 2013 en lætur nú af störfum til að taka við framkvæmdarvaldinu í Evrópusambandinu úr höndum Lúxemborgarans Jean-Claude Juncker, en kjörtímabil hans rennur út 1. október.

Hún er fædd í Brussel, höfuðborg Evrópusambandsins, árið 1958 og talar reiprennandi þýsku og frönsku en Frakkar hafa jafnan gert það að skilyrði fyrir stuðningi sínum við frambjóðendur. Hún nam hagfræði við Háskólann í Göttingen og London School of Economics en skipti síðar yfir í læknisfræði í Hannover þaðan sem hún útskrifaðist.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kveður senn.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kveður senn. AFP

Sem varnarmálaráðherra hefur von der Leyen talað fyrir því að Þýskaland beiti sér af meiri festu á alþjóðagrundvelli og sætti það til að mynda tíðindum þegar hún ákvað árið 2014 að senda þýska hermenn til stuðnings hersveitum í Írak. Þjóðverjar hafa frá lokum seinna stríðs verið varfærnir til þátttöku í hvers kyns hernaðaraðgerðum og má segja að ákvörðunin hafi markað straumhvörf í afstöðu þýskra stjórnvalda.

Hún hefur stutt þvingunaraðgerðir evrópskra ríkja í garð Rússa vegna ólöglegrar innlimunar Krímskaga árið 2014 og kallað eftir frekari stuðningi Atlantshafsbandalagsins við Eystrasaltsríkin vegna hættunnar af Rússum.

Málsvari Evrópusamrunans

Rétt eins og forveri hennar í embætti, Jean-Claude Juncker, horfir von der Leyen jákvæðum augum til fyrirhugaðs Evrópusamruna og hefur látið hafa eftir sér að hún sjái fyrir sér evrópskt sambandsríki (e. United States of Europe) að bandarískri, svissneskri og þýskri fyrirmynd þar sem Evrópusambandið fer með stjórn á grundvallaratriðum skatta og fjárlaga, en þó þannig að aðildarríkin hafi visst frelsi í þeim málum.

Von der Leyen hefur aukið þátttöku Þjóðverja í hernaðaraðgerðum á …
Von der Leyen hefur aukið þátttöku Þjóðverja í hernaðaraðgerðum á erlendri grundu. AFP

Þá hefur hún sagt að stofnun Evrópuhers, sem er á dagskrá, eigi að vera langtímamarkmið sambandsins. Von der Leyen hefur haldið því fram að úrsögn Breta úr sambandinu verði til þess að auðvelda samruna enda hafi Bretar lengi vel „haldið sambandinu í gíslingu“ og kosið gegn „öllu sem heitir Evrópa“.

Mannréttindi

Ursula von der Leyen kaus með lögleiðingu hjónabanda samkynhneigðra árið 2017, þvert á yfirlýsta stefnu flokks síns og Angelu Merkel. Kanslarinn hafði þó gefið það út fyrir fram að þingmönnum væri frjálst að fylgja eigin sannfæringu í málinu, sem kom til umræðu vegna þrýstings frá samstarfsflokknum Jafnaðarmönnum. Fór svo að málið var samþykkt. Von der Leyen hefur einnig talað máli samkynja hjóna sem berjast fyrir rétti til ættleiðingar í Þýskalandi.

Árið 2013 barðist von der Leyen án árangurs fyrir frumvarpi sem hefði sett lágmarkskvóta á þátttöku hvors kyns í stjórnum fyrirtækja í Þýskalandi. 20% árið 2018 og hækkað upp í 40% 2023.

Nýliði í Brussel

Þrátt fyrir að hafa fæðst í borginni hefur Ursula von der Leyen ekki áður unnið innan stjórnkerfis Evrópusambandsins í Brussel. 

Ákvörðunin um að skipa von der Leyen kem­ur mörg­um í opna skjöldu, ekki síst vegna þess að hún var ekki odd­viti neins banda­lags í Evr­ópuþing­kosn­ing­un­um í maí, en sam­kvæmt Lissa­bon-sátt­mál­an­um ber leiðtogaráðinu að hafa niður­stöður kosn­ing­anna til hliðsjón­ar við skip­an fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar. Buðu flokka­banda­lög­in á þing­inu enda fram sína odd­vita (Spitzenk­andi­dat) til starfs­ins, sam­kvæmt odd­vita­fyr­ir­komu­lag­inu svo­kallaða.

Svo gæti farið að Evr­ópuþingið hafni út­nefn­ingu von der Leyen og mun málið þá senni­lega enda á borði leiðtogaráðsins á ný. Evr­ópuþing­menn hafa marg­ir hverj­ir, frá því odd­vita­fyr­ir­komu­lagið var tekið upp árið 2014, lagt mikla áherslu á að leiðtogaráðið virði það og skipi einn af odd­vit­um flokka­banda­lag­anna í embættið.

Charles Michel, fráfarandi forsætisráðherra Belgíu, verður næsti forseti leiðtogaráðs sambandsins. …
Charles Michel, fráfarandi forsætisráðherra Belgíu, verður næsti forseti leiðtogaráðs sambandsins. Saman munu þau von der Leyen leiða sambandið inn í nýja tíma næstu fimm árin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert