Hundruð stuðningsmanna sjálfstæðrar Katalóníu komu saman við byggingu Evrópuþingsins í Strassborg í morgun til að mótmæla því að þrír leiðtogar aðskilnaðarsinna hefðu ekki getað tekið sæti sitt á þinginu.
Mótmælendur veifuðu Stirninu, sérstakri sjálfstæðisútgáfu fána Katalóníuhéraðs, eins og sjá má á myndum sem mbl.is fékk sendar frá mótmælum dagsins.
Spænsk kjörstjórn hafði meinaði Carles Puigdemont, fyrrverandi forseta katalónsku héraðsstjórnarinnar, og Toni Comín, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, að bjóða fram þar sem þeir dvelja nú í Belgíu á flótta undan spænsku réttvísinni. Þeir sæta allir ákæru snúi þeir heim aftur vegna atkvæðagreiðslu sem katalónska héraðsstjórnin boðaði einhliða til um sjálfstæði árið 2017 og var ólögleg samkvæmt spænskum lögum. Sömu sögu er að segja af Clöru Ponsatí, fyrrverandi menntamálaráðherra í stjórninni, en hún dvelur í Skotlandi.
<span>Hæstiréttur sneri þeim úrskurði við vegna þess að „uppreisn“ væri ekki meðal þess sem getið væri í kosningalögum um ástæðu til kjörgengissviptingar. Gat þríeykið því boðið fram undir merkjum Frelsis fyrir Evrópu (Junts) og hlaut flokkurinn um eina milljón atkvæða og tvö sæti.</span>
Til að taka sæti sín þurftu frambjóðendurnir þó að sækja vígsluathöfn í Madríd á dögunum, og það gerðu þeir ekki enda eiga þeir, sem fyrr segir, handtöku yfir höfði sér. Misstu þeir því af kjörbréfunum og eiga ekki rétt til setu á þinginu.
Matt Carthy, Evrópuþingmaður norðurírska lýðveldisflokksins Sinn Fein sagði á fundinum í dag að grafið væri undan trúverðugleika Evrópuþingsins ef þingmenn stæðu ekki með katalónskum kjósendum.