Nigel Farage og félagar í Brexit-flokknum fóru ekki í launkofa með skoðanir sínar á vinnuveitanda sínum, Evrópusambandinu, á fyrsta fundi nýs Evrópuþings, sem sett var í morgun eftir þingkosningar í maí.
Áður en Antonio Tarjani, fráfarandi þingforseti, setti þingið lék sinfóníuhljómsveit Óðinn til gleðinnar (An Die Freude) úr níundu sinfóníu Beethovens, söng Evrópusambandsins. Bað hann þingmenn að rísa úr sætum í virðingarskyni, en þingmenn Brexit-flokksins urðu fæstir við bóninni. Risu reyndar úr sætum, en sneru baki í sinfóníuhljómsveitina til að votta sambandinu vanvirðingu sína.
Tarjani ítrekaði að þingmenn skyldu rísa úr sæti í virðingarskyni, en það þýddi ekki að þingmenn þyrftu endilega að deila skoðunum Evrópusambandsins eða kjörnum fulltrúum þess. Þegar þjóðsöngvar væru leiknir væri hefð að rísa úr sætum til að votta ríkinu virðingu, og sama ætti við hér.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þjóðernissinnar sýna Evrópusambandinu vanvirðingu á þennan hátt, en Nigel Farage tók upp á því sama fyrir fimm árum þegar síðasta Evrópuþing var sett og hann var þingmaður breska sjálfstæðisflokksins (UKIP). Þá má jafnan þekkja þingmenn flokksins, og aðra þjóðernissinna, úr skaranum á því að þeir skreyta borð sitt með fána heimalands síns.
Nýtt fimm ára kjörtímabil Evrópuþingsins er nú hafið, en enn hefur ekki verið skipað í stöður forseta framkvæmdastjórnarinnar og forseta leiðtogaráðsins, sem láta af embætti í haust. Leiðtogaráð Evrópusambandsins, sem í sitja forsetar eða forsætisráðherrar aðildarríkjanna, hafa fundað stíft í Brussel síðustu daga í því skyni. Upphaflega stóð til að ljúka stólaleiknum áður en nýtt Evrópuþing kæmi saman til fyrsta fundar, en nú er ljóst að það tekst ekki.
Sennilegast þykir að Frans Timmermans, leiðtogi jafnaðarmanna, verði skipaður forseti framkvæmdastjórnarinnar, og taki þá við af hinum lúxemborgska Jean-Claude Juncker sem lætur af embætti 1. október. Ekki hefur þó náðst samkomulag um það enn vegna andstöðu leiðtoga nokkurra þjóða í Austur-Evrópu. Vilja þeir tryggja að forseti leiðtogaráðsins verði þá Austur-Evrópumaður í staðinn, líkt og nú er, og helst úr hægribandalaginu EPP. Þangað hefur Emmanuel Macron, framgöngumaður frjálslyndra í leiðtogaráðinu, hins vegar viljað koma samstarfsmanni sínum og hefur Margrethe Vestager, hinn danski samkeppnisstjóri ESB, verið nefnd í því skyni.