Íþróttavöruframleiðandinn Nike hefur tekið strigaskó úr sölu en aftan á skónum var gömul útgáfa af bandaríska fánanum sem notuð var af bandarískum nasistum. Skórnir voru teknir úr umferð eftir kvartanir frá fyrrverandi NFL-leikmanninum Colin Kaepernick.
Kaepernick vakti mikla athygli þegar hann kraup á kné undir bandaríska þjóðsöngnum sem leikinn er fyrir leiki í NFL-deildinni. Með því vildi hann mótmæla lögregluofbeldi og almennri mismunun sem hann og fleira íþróttafólk segir svart fólk sæta í Bandaríkjunum.
Nike ákvað síðar að nota Kaepernick sem andlit auglýsingaherferðar sinnar.
Áðurnefndir skór áttu að koma í sölu í tilefni af þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, 4. júlí. Hætt var við það eftir að Kaepernick benti á að Nike ætti ekki að nota tákn sem honum og öðrum gætu þótt móðgandi.
Fáninn, svokallaður Betsy Ross-fáni, var búinn til í bandarísku byltingunni en nasistar vestanhafs notuðu hann á fjórða áratug síðustu aldar.