„Menningarlegt þjóðarmorð“

Lögreglumaður stendur vörð þegar uighur-múslimar mæta til morgunbænar. Yfirvöld í …
Lögreglumaður stendur vörð þegar uighur-múslimar mæta til morgunbænar. Yfirvöld í Xinjiang-héraði fylgjast náið með minnihlutahópnum í héraðinu. AFP

Kínversk yfirvöld aðskilja af ásettu ráði börn sem tilheyra minnihlutahópi uighur-múslima frá fjölskyldum sínum, trúarhefðum og tungumáli í Xinjiang-héraði. Í einu litlu þorpi hafa yfir 400 börn verið aðskilin frá báðum foreldrum sínum. Þetta sýna nýbirt gögn sem BBC hefur undir höndum.

Flestir foreldrarnir tilheyra hundruðum þúsunda fullorðinna uighur-múslima sem haldið er í leynilegum „kyrrsetningarbúðum“ í héraðinu þar sem þau þurfa að sæta ger­ræðis­leg­um hand­tök­um og marg­vís­leg­um tak­mörk­un­um varðandi trú­ariðkan­ir, auk þess sem póli­tískri inn­ræt­ingu er þröngvað upp á þá. Frá því greindu mann­rétt­inda­sam­tök­in Hum­an Rights Watch síðastliðið haust. 

Blaðamenn BBC hafa kynnt sér aðstæður barna í héraðinu, bæði með opinberum gögnum sem og viðtölum við fjölskyldur í héraðinu sem varpa ljósi á stöðu barna í Xinjiang-héraði. Gögnin sýna fram á að yfirvöld stundi það kerfisbundið að fjarlæga börnin frá heimkynnum sínum og slíta á öll tengsl við upprunann. 

Mann­rétt­inda­stjórn Sam­einuðu þjóðanna telur að kín­versk stjórn­völd haldi allt að einni millj­ón uig­h­ur-múslima í leyni­leg­um „kyrr­setn­ing­ar­búðum“ í Xi­anjiang-héraði þar sem þeir eru látn­ir sæta póli­tískri inn­ræt­ingu. Stjórn­völd í Kína hafna því al­farið að til­gang­ur slíkra búða sé „stjórn­mála­fræðsla“. Um sé að ræða starfsþjálf­un­ar­miðstöðvar sem séu hluti af aðgerðum stjórn­valda til að örva hag­vöxt og sam­fé­lags­leg­an hreyf­an­leika í héraðinu.

Kín­versk yf­ir­völd hafa þó sagt Xinjiang stafa al­var­leg ógn af ís­lömsk­um upp­reisn­ar­mönn­um og aðskilnaðar­sinn­um sem und­ir­búi árás­ir og auki spennu milli uig­h­ur-múslima, sem líta á héraðið sem heima­slóðir sín­ar, og han-Kín­verja sem eru fjöl­menn­ast­ir íbúa á svæðinu.

„Ég veit ekki hver er að hugsa um þær“

Blaðamönnum sem ferðast um Xinjiang er fylgt hvert fótmál sem gerir þeim erfitt fyrir að afla gagna en sagan er önnur í Istanbúl í Tyrklandi þar sem uighur-múslimar hópast að blaðamönnum og vilja ólmir segja sögu. Margir þeirra halda á myndum af börnum sínum sem er sárt saknað. 

„Ég veit ekki hver er að hugsa um þær,“ segir ein móðir sem bendir á mynd af þremur ungum dætrum sínum. „Það er enginn möguleiki að komast í samband við þær.“ 

Blaðamenn BBC tóku 54 aðskilin viðtöl við mæður, feður, ömmur og afa sem hafa orðið viðskila við yfir 90 börn. Þau tilheyra öll minnihlutahópi uighur-múslima, sem er jafnframt stærsta þjóðarbrotið í Xinjiang-héraði, og hefur á síðustu þremur árum ýmist verið útskúfað úr héraðinu af kínverskum stjórnvöldum eða hneppt í kyrrsetningarbúðir. Ef þau snúa aftur í héraðið, í leit að börnum sínum og barnabönum, er næsta víst að þau endi í slíkum búðum. 

Einn viðmælandi blaðamanns á eiginkonu í kyrrsetningarbúðum og óttast hann að börnin þeirra, átta talsins, séu í haldi kínverskra yfirvalda. „Ég held að þau hafi verið send í endurmenntunarbúðir,“ segir hann. 

Refsað fyrir að tala annað tungumál en kínversku

BBC ræddi við þýska fræðimann­in­n Adri­an Zenz sem skoðað hef­ur aðstæður uighur-múslima, sérstaklega barna, í Xianjing síðustu ár og benda rannsóknir hans til þess að sérstökum „endurmenntunarbúðum“ ætluðum börnum hafi fjölgað mikið síðustu misseri. 

Zenz segir markmið stjórnvalda að útrýma tungumáli uighur-múslima í búðunum og er nemendum jafnt sem kennurum refsað grimmilega tali þeir annað tungumál en kínversku á skólatíma. 

Xu Guixiang, háttsettur embættismaður héraðsstjórnarinnar í Xinjiang, þvertekur fyrir að héraðið þurfi að sjá fyrir fjölda barna sem hafa verið aðskilin frá foreldrum sínum. „Ef allir úr einni og sömu fjölskyldunni hafa verið sendir í starfsþjálf­un­ar­miðstöðvar þá glímir fjölskyldan við alvarlegt vandamál,“ segir hann í samtali við BBC, hlæjandi. „Ég hef aldrei séð dæmi um slíkt.“

Gögn sem Zenz hefur undir höndum sýna hins vegar fram á að kínversk yfirvöld eru með sérstakan „bágstaddan hóp“ barna þar sem báðir foreldrar eru í búðum á vegum stjórnvalda. Blaðamenn BBC höfðu samband við menntastofnanir í héraðinu og spurðu um afdrif barna sem eiga foreldra í kyrrsetningarbúðum. „Þau fara í heimavistarskóla,“ var svarið. 

Margir skólanna eru umkringdir tíu þúsund volta rafmagnsgirðingu og hafa umfangsmikið eftirlitskerfi. „Það eru sannanir fyrir því að foreldrar og börn eru aðskilin með kerfisbundnum hætti sem gefur til kynna ætlun kínverskra stjórnvalda að ala upp nýja kynslóð og slíta á öll tengsl þeirra við uppruna sinn, trú og tungumál. Þetta eru sannanir sem benda ekki neins nema menningarlegs þjóðarmorðs,“ segir Zenz.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert