„Menningarlegt þjóðarmorð“

Lögreglumaður stendur vörð þegar uighur-múslimar mæta til morgunbænar. Yfirvöld í …
Lögreglumaður stendur vörð þegar uighur-múslimar mæta til morgunbænar. Yfirvöld í Xinjiang-héraði fylgjast náið með minnihlutahópnum í héraðinu. AFP

Kín­versk yf­ir­völd aðskilja af ásettu ráði börn sem til­heyra minni­hluta­hópi uig­h­ur-múslima frá fjöl­skyld­um sín­um, trú­ar­hefðum og tungu­máli í Xinjiang-héraði. Í einu litlu þorpi hafa yfir 400 börn verið aðskil­in frá báðum for­eldr­um sín­um. Þetta sýna nýbirt gögn sem BBC hef­ur und­ir hönd­um.

Flest­ir for­eldr­arn­ir til­heyra hundruðum þúsunda full­orðinna uig­h­ur-múslima sem haldið er í leyni­leg­um „kyrr­setn­ing­ar­búðum“ í héraðinu þar sem þau þurfa að sæta ger­ræðis­leg­um hand­tök­um og marg­vís­leg­um tak­mörk­un­um varðandi trú­ariðkan­ir, auk þess sem póli­tískri inn­ræt­ingu er þröngvað upp á þá. Frá því greindu mann­rétt­inda­sam­tök­in Hum­an Rights Watch síðastliðið haust. 

Blaðamenn BBC hafa kynnt sér aðstæður barna í héraðinu, bæði með op­in­ber­um gögn­um sem og viðtöl­um við fjöl­skyld­ur í héraðinu sem varpa ljósi á stöðu barna í Xinjiang-héraði. Gögn­in sýna fram á að yf­ir­völd stundi það kerf­is­bundið að fjar­læga börn­in frá heim­kynn­um sín­um og slíta á öll tengsl við upp­run­ann. 

Mann­rétt­inda­stjórn Sam­einuðu þjóðanna tel­ur að kín­versk stjórn­völd haldi allt að einni millj­ón uig­h­ur-múslima í leyni­leg­um „kyrr­setn­ing­ar­búðum“ í Xi­anjiang-héraði þar sem þeir eru látn­ir sæta póli­tískri inn­ræt­ingu. Stjórn­völd í Kína hafna því al­farið að til­gang­ur slíkra búða sé „stjórn­mála­fræðsla“. Um sé að ræða starfsþjálf­un­ar­miðstöðvar sem séu hluti af aðgerðum stjórn­valda til að örva hag­vöxt og sam­fé­lags­leg­an hreyf­an­leika í héraðinu.

Kín­versk yf­ir­völd hafa þó sagt Xinjiang stafa al­var­leg ógn af ís­lömsk­um upp­reisn­ar­mönn­um og aðskilnaðar­sinn­um sem und­ir­búi árás­ir og auki spennu milli uig­h­ur-múslima, sem líta á héraðið sem heima­slóðir sín­ar, og han-Kín­verja sem eru fjöl­menn­ast­ir íbúa á svæðinu.

„Ég veit ekki hver er að hugsa um þær“

Blaðamönn­um sem ferðast um Xinjiang er fylgt hvert fót­mál sem ger­ir þeim erfitt fyr­ir að afla gagna en sag­an er önn­ur í Ist­an­búl í Tyrklandi þar sem uig­h­ur-múslim­ar hóp­ast að blaðamönn­um og vilja ólm­ir segja sögu. Marg­ir þeirra halda á mynd­um af börn­um sín­um sem er sárt saknað. 

„Ég veit ekki hver er að hugsa um þær,“ seg­ir ein móðir sem bend­ir á mynd af þrem­ur ung­um dætr­um sín­um. „Það er eng­inn mögu­leiki að kom­ast í sam­band við þær.“ 

Blaðamenn BBC tóku 54 aðskil­in viðtöl við mæður, feður, ömm­ur og afa sem hafa orðið viðskila við yfir 90 börn. Þau til­heyra öll minni­hluta­hópi uig­h­ur-múslima, sem er jafn­framt stærsta þjóðar­brotið í Xinjiang-héraði, og hef­ur á síðustu þrem­ur árum ým­ist verið út­skúfað úr héraðinu af kín­versk­um stjórn­völd­um eða hneppt í kyrr­setn­ing­ar­búðir. Ef þau snúa aft­ur í héraðið, í leit að börn­um sín­um og barna­bön­um, er næsta víst að þau endi í slík­um búðum. 

Einn viðmæl­andi blaðamanns á eig­in­konu í kyrr­setn­ing­ar­búðum og ótt­ast hann að börn­in þeirra, átta tals­ins, séu í haldi kín­verskra yf­ir­valda. „Ég held að þau hafi verið send í end­ur­mennt­un­ar­búðir,“ seg­ir hann. 

Refsað fyr­ir að tala annað tungu­mál en kín­versku

BBC ræddi við þýska fræðimann­in­n Adri­an Zenz sem skoðað hef­ur aðstæður uig­h­ur-múslima, sér­stak­lega barna, í Xi­anj­ing síðustu ár og benda rann­sókn­ir hans til þess að sér­stök­um „end­ur­mennt­un­ar­búðum“ ætluðum börn­um hafi fjölgað mikið síðustu miss­eri. 

Zenz seg­ir mark­mið stjórn­valda að út­rýma tungu­máli uig­h­ur-múslima í búðunum og er nem­end­um jafnt sem kenn­ur­um refsað grimmi­lega tali þeir annað tungu­mál en kín­versku á skóla­tíma. 

Xu Guix­iang, hátt­sett­ur emb­ætt­ismaður héraðsstjórn­ar­inn­ar í Xinjiang, þver­tek­ur fyr­ir að héraðið þurfi að sjá fyr­ir fjölda barna sem hafa verið aðskil­in frá for­eldr­um sín­um. „Ef all­ir úr einni og sömu fjöl­skyld­unni hafa verið send­ir í starfsþjálf­un­ar­miðstöðvar þá glím­ir fjöl­skyld­an við al­var­legt vanda­mál,“ seg­ir hann í sam­tali við BBC, hlæj­andi. „Ég hef aldrei séð dæmi um slíkt.“

Gögn sem Zenz hef­ur und­ir hönd­um sýna hins veg­ar fram á að kín­versk yf­ir­völd eru með sér­stak­an „bág­stadd­an hóp“ barna þar sem báðir for­eldr­ar eru í búðum á veg­um stjórn­valda. Blaðamenn BBC höfðu sam­band við mennta­stofn­an­ir í héraðinu og spurðu um af­drif barna sem eiga for­eldra í kyrr­setn­ing­ar­búðum. „Þau fara í heima­vist­ar­skóla,“ var svarið. 

Marg­ir skól­anna eru um­kringd­ir tíu þúsund volta raf­magns­girðingu og hafa um­fangs­mikið eft­ir­lit­s­kerfi. „Það eru sann­an­ir fyr­ir því að for­eldr­ar og börn eru aðskil­in með kerf­is­bundn­um hætti sem gef­ur til kynna ætl­un kín­verskra stjórn­valda að ala upp nýja kyn­slóð og slíta á öll tengsl þeirra við upp­runa sinn, trú og tungu­mál. Þetta eru sann­an­ir sem benda ekki neins nema menn­ing­ar­legs þjóðarmorðs,“ seg­ir Zenz.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert