Svein Ludvigsen, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Noregs, hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að misnota þrjá unga hælisleitendur á árunum 2011 til 2017. Fórnarlömb hans eru í dag á aldrinum 25-34 ára gamlir.
Dómurinn í þessu umtalaða sakamáli féll í gær, en niðurstaðan gerð opinber af saksóknurum í Norður-Troms í dag. Lögmaður Ludvigsen segir að hann ætli sér að áfrýja niðurstöðunni.
Ludvigsen, sem er 72 ára gamall, var þingmaður Hægriflokksins á norska Stórþinginu árin 1989 til 2001, sjávarútvegsráðherra í annarri ríkisstjórn Kjell Magne Bondevik 2001 til 2005 og svo fylkisstjóri Troms árin 2006 til 2014.
Eins og mbl.is fjallaði ítarlega um í júnímánuði var Ludvigsen gefið að sök að hafa margþröngvað þremur ungum mönnum sem leituðu hælis í landinu til kynferðismaka á hótelum í Ósló, fylkisþingshúsinu í Tromsø, sumarbústað Ludvigsen í Andselv og bifreið á ótilgreindum stöðum, ýmist gegn greiðslu 15.000 norskra króna, loforðum um aðstoð við að fá hælisbeiðnir mannanna samþykktar eða hótunum um að hann gæti auðveldlega komið í veg fyrir að þær yrðu samþykktar.
Hann hefur neitað sakargiftunum, en viðurkenndi þó að hann hefði haft kynmök við einn hælisleitendanna á hótelherbergi í Ósló með beggja vilja. Ludvigsen sagðist hafa verið í sturtu þegar hælisleitandinn knúði dyra og svo hefði „eitt leitt af öðru“.