Íranskur embættismaður segir að kyrrsetja eigi breskt olíuskip, fallist Bretar ekki á að skila írönsku olíuskipi sem kyrrsett var við Gíbraltar í gærmorgun.
Sjóher Breta aðstoðaði yfirvöld í Gíbraltar við kyrrsetningu íransks olíuskips í gærmorgun, en grunur leikur á því að Grace 1 hafi verið að flytja hráolíu til olíuhreinsistöðvarinnar Baniyas Refinery í Sýrlandi, en hún fellur undir viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins gegn stjórnvöldum í Sýrlandi.
Íranar boðuðu breska sendiherrann í Teheran á fund utanríkisráðuneytisins, sökuðu Breta um sjórán og kröfðust skýringa á kyrrsetningunni.
Mohsen Rezaei, einn ráðgjafa írönsku ríkisstjórnarinnar, segir Íran ekki munu hika við að svara yfirgangsseggjum og leggur til að breskt olíuflutningaskip verði kyrrsett sem svar við kyrrsetningu Grace 1.