„Ekkert kemur mér á óvart í þessu lengur,“ segir Anders Frydenlund, dráttarbílstjóri hjá Vang Auto-Service í Valdres í Sognsæ og Firðafylki í Noregi, í samtali við mbl.is um leið og hann veitir leyfi fyrir notkun á ljósmynd sem hann tók í gær og vekur án efa vægan fiðring í einhverjum mögum.
Frydenlund var kallaður út til að fá fast land á ný undir alla hjólbarða húsbíls eldri þýskra hjóna sem höfðu bakkað bílnum aðeins of langt út fyrir veginn á hinum rómaða útsýnisstað Stegastein við Aurlandsfjorden sem er í 650 metra hæð yfir firðinum.
„Þetta hefði verið tveggja og hálfs metra fall fyrst,“ segir Frydenlund og lætur framhaldið hanga í lausu lofti, bókstaflega. Aðstæður á staðnum eru nefnilega þannig að eftir fyrsta fallið tekur við snarbrött skógi vaxin hlíð alla leið niður að tjaldstæðinu Lunde Camping rúmum 600 metrum neðar og hefði líklega ekki þurft að spyrja að leikslokum hefði bíll Þjóðverjanna, sem segja má að lifi á brúninni á ferðum sínum, farið fram af steinsteyptum kantinum.
Hjónin sáu sitt óvænna og gripu strax til þess að hringja í Adac-miðstöðina í Þýskalandi sem aðstoðar ökumenn í vanda eða háska þar í landi. Adac hafði þegar samband við björgunarmiðstöð Samtaka norskra bifreiðaeigenda, NAF, sem reka umsvifamikla viðgerða- og hjálparþjónustu á norskum vegum. Símavörður þar hafði án tafar samband við viðbragðsaðila NAF í Valdres, sem er næst Stegastein, og innan skamms birtist Anders Frydenlund á dráttarbíl sínum og kom húsbílnum á malbikið á ný eftir örlítið skak fram og til baka með dráttarspili, tréklossum og norskri útsjónarsemi.
Þýsku hjónin skulfu örlítið að sögn Frydenlund en örlögin voru þeim hliðholl í þetta skiptið. Það var staðarmiðillinn Sogn Avis sem fyrstur greindi frá atvikinu en flestir ef ekki allir stóru norsku miðlarnir hafa fjallað um það í dag enda myndin ágæt öðrum vegfarendum og ferðamönnum til viðvörunar sem leggja leið sína á þennan magnaða útsýnisstað til að horfa yfir Aurlandsfjorden úr 650 metra hæð.