Donald Trump Bandaríkjaforseti gagnrýnir sendiherra Bretlands í Washington og segir hann ekki hafa þjónað Bretum vel. Að mati Kim Darroch, sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum, eru Trump og stjórn hans bæði óhæf og ótraust.
Fjölmiðlar í Bretlandi greindu í gær frá þessu áliti sendiherrans en minnisblöðum hans til bresku ríkisstjórnarinnar var lekið til dagblaðsins Mail on Sunday.
„Við erum ekki miklir aðdáendur þessa manns og hann hefur ekki þjónað Bretum vel,“ sagði Trump þegar hann var spurður út í ummæli sendiherrans á blaðamannafundi í gærkvöld, að því er fram kemur á vef BBC.
„Ég gæti sagt ýmislegt um hann [Darroch] en það tekur því ekki,“ bætti forsetinn við.
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, sagði minnisblöðin lýsa persónulegum skoðunum eins manns en ekki skoðunum bresku ríkisstjórnarinnar.
Darroch fer ófögrum orðum um Trump í minniblöðunum og stjórn hans. Hann segir meðal annars að Hvíta húsið sé einmuna óstarfhæft og klofið undir stjórn Trump. Segir hann forsetatíð Trump geta endað með ósköpum.
„Við eigum erfitt með að trúa því að þessi stjórn eigi eftir að verða eðlilegri; minna óstarfhæf, útreiknanlegri, með minna sundurlyndi eða minna klaufaleg í utanríkissamskiptum,“ segir Darroch meðal annars í minnisblöðum sínum.
Bretar rannsaka hvaðan lekinn kom.