Evrópusambandið hefur „miklar áhyggjur“ af áætlunum Írana um að brjóta gegn samkomulagi um hámarksauðgun úrans sem kveðið er á um í kjarnorkusamkomulaginu frá 2015.
„Við hvetjum Íran eindregið til að hætta við allt sem stríðir gegn samkomulaginu,“ sagði Maja Kocijancic, talsmaður Evrópusambandsins, við fjölmiðla í morgun.
Stjórnvöld í Íran hófu í gær framleiðslu á auðguðu úrani umfram það sem ríkinu er heimilt að framleiða samkvæmt kjarnorkusamningnum.
Írönsk stjórnvöld hafa sagt að vilji sé til að standa við samkomulagið en stjórnvöld fara fram á að þau ríki sem enn eiga aðild að samningnum; Rússland, Kína, Bretland, Frakkland og Þýskaland, beiti sér fyrir því að viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna á Íran verði aflétt.