Stafar ógn af gjörðum Íransstjórnar?

Íranskir fjölmiðlar eru í dag undirlagðir fréttum af nýjustu brotum …
Íranskir fjölmiðlar eru í dag undirlagðir fréttum af nýjustu brotum stjórnvalda þar í landi gegn kjarnorkusamkomulaginu. AFP

Athygli heimsins beinist þessa dagana að Íran, en ríkið hefur að undanförnu tekið skref sem brjóta í bága við kjarnorkusamkomulagið frá 2015. Þetta gera þarlend stjórnvöld til þess að svara gjörðum Bandaríkjastjórnar, sem sagði sig frá kjarnorkusamkomulaginu í fyrra og hóf að beita Írana efnahagsþvingunum.

Í gær bárust fregnir af því að Íranar séu byrjaðir að auðga úran umfram þau mörk sem þeim eru sett í kjarnorkusamkomulaginu og að hlutfall kjarnkleyfra samsæta í úraninu sé komið umfram það 3,67% hámark sem kveðið er á um – upp í 4,5%.

Því hærra sem hlutfall kjarnkleyfra samsæta er, því öflugra er úranið, en nefna má að til þess að framleiða kjarnorkusprengju þarf úranið að vera samsett af 80-90% kjarnkleyfum samsætum.

Í náttúrulegu úrangrýti eru rúm 0,7% svokallaðar kjarnkleyfar samsætur og tæp 99,3% ókjarnkleyfar, en hægt er að skilja þessar tvær tegundir samsæta að í þar til gerðum skilvindum og einangra með því kjarnkleyfu samsæturnar.

Af Vísindavefnum: Hvað er að auðga úran?

Íranskir ráðamenn hafa gefið í skyn að undanförnu að þeir hyggist auðga úranið enn meira á næstunni, jafnvel upp í 5% hreinleika, en það hlutfall þarf til þess að búa til kjarnorkueldsneyti fyrir kjarnorkuver Írana.

Bushehr-kjarnorkuverið í Íran.
Bushehr-kjarnorkuverið í Íran. AFP

Robert Kelley, fyrrverandi eftirlitsmaður hjá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni, segir við AFP-fréttastofuna að þótt það hljómi ef til vill ekki eins og mikið mál að Íranar séu að fara úr 3,67% upp í 5% auðgun, sé það svo að þegar að búið sé að auðga úran umfram 3,67% verði það æ auðveldara að auka hreinleika úransins. Mesta vinnan fari í að koma því upp að 3,67% markinu.

Hann segir þó að að hans mati sé það að Íranar ætli sér að auka hlutfallið úr 3,67% upp í 5% „eiginleg sönnun“ fyrir því að þarlend stjórnvöld séu ekki að vinna að því að byggja kjarnorkuvopn og lýsir því frekar sem svo að fyrirætlanirnar séu ómerkilegt „pot í auga“ Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Hvað þýðir að Íranar eigi of mikið af úrani?

Á fyrsta degi þessa mánaðar staðfesti Alþjóðakjarnorkumálastofnunin að Íranar byggju yfir meira magni af auðguðu úrani en þeim er heimilt samkvæmt skilmálum kjarnorkusamkomulagsins, eða umfram 300 kíló.

Sérfræðingar hafa sagt að Íran þyrfti margfalt þetta magn til þess að byrja að framleiða kjarnorkusprengju.

Olli Heinonen, fyrrverandi yfirmaður hjá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni, segir við AFP að á þessum tímapunkti sé ekki ástæða til þess að hafa miklar áhyggjur af þessu broti Írana.

Hann benti hins vegar á að ef að Íran héldi áfram að sanka að sér úranbirgðum gæti það átt nægilega mikið af efninu eftir eitt ár og að á þeim tímapunkti gæti sá tími sem það myndi taka ríkið að framleiða úran sem hentaði í vopnaframleiðslu verið orðinn tiltölulega stuttur.

Segjast geta hætt við á nokkrum klukkustundum

Írönsk stjórnvöld hafa lagt áherslu á það að þau geti snúið brotum sínum á kjarnorkusamkomulaginu við á svipstundu, ef að þau ríki sem enn eru aðilar að samkomulaginu – Bret­land, Kína, Frakk­land, Þýska­land og Rúss­land – standi við sinn enda samkomulagsins, í þeim skilningi að ríkin fimm veiti þeim skjól gegn þeim efnahagsþvingunum sem lagðar hafa verið á ríkið af hálfu Bandaríkjanna.

Íranar hafa hótað því að gerist það ekki, muni þau grípa til frekari ráðstafana, sem brjóti í bága við samkomulagið frá 2015.

Hvaða leiðir gætu það verið?

Írönsk stjórnvöld hafa, samkvæmt fréttaskýringu AFP, gefið í skyn að „þriðja stig“ óhlýðni þeirra við skilmála samkomulagsins gæti átt sér stað á næstu mánuðum ef að samkomulag náist ekki um að draga úr áhrifum efnahagsþvingana á ríkið.

Þetta „þriðja stig“ gæti falist í því að ríkið setji upp fleiri skilvindur til þess að flýta auðgun úrans. Yfir 1.000 hátækniskilvindur af gerðinni IR-2M, notaðar til þess að auðga úran, voru settar til hliðar árið 2015. Það var hluti samkomulagsins.

Vopnaeftirlitsmaður á vegum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar vinnur hér að því að aftengja …
Vopnaeftirlitsmaður á vegum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar vinnur hér að því að aftengja tækjabúnað í Natanz-kjarnorkuverinu í Íran árið 2014. AFP

Ef þessar öflugu skilvindur væru settar aftur af stað gæti tíminn sem Íran þyrfti til þess að auðga úran til notkunar í kjarnorkusprengjur styst niður í sjö mánuði, að sögn Davids Albright, sérfræðings hjá hugveitunni Institute for Science and International Security.

Robert Kelley segir þó að horfa verði til fleiri þátta en bara þeirra efna sem Íranar búi yfir. Hann segist telja að þrátt fyrir að Íran myndi auðga úran upp að þeim mörkum sem þarf til þess að búa til kjarnorkusprengju, sé ýmsu öðru ábótavant þar.

Til dæmis telji hann að Íranar búi ekki yfir bráðsprengifimu efni (e. high explosives) né þeim vélbúnaði sem þurfi til að búa til kjarnorkuvopn.

Þá segir Francois Nicoullaud, fyrrverandi sendiherra Frakka í Íran, að það að eiga einungis eitt vopn myndi „gera Íran berskjaldað þegar það hefði verið prófað“ og því væri betra fyrir Írana að smíða alla vega tvö eða þrjú kjarnorkuvopn.

Hann segist meta stöðuna sem svo að til þess þurfi Íranar án efa þrjú til fimm ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert