Donald Trump Bandaríkjaforseti gagnrýndi Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, og sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum harkalega í dag. Bresk stjórnvöld létu á sama tíma í ljós vonbrigði með leka á minnisblöðum sem trúnaður átti að ríkja um, en í þeim segir sendiherrann stjórn Trumps vera óhæfa og ótrausta.
Fjölmiðlar í Bretlandi greindu um helgina frá minnisblöðum sendiherrans, Kim Darroch, og segir Reuters-fréttaveitan lekann hafa vakið mikla óánægju hjá Trump og valdið vandræðagangi hjá bresku stjórninn.
Greindi talsmaður May fjölmiðlum í dag frá því að samband hefði verið haft við bandarísk stjórnvöld og þeim greint frá því að Bretar teldu lekann óásættanlegan.
Trump tjáði sig hins vegar, líkt og svo oft áður, um málið á Twitter. Þar gagnrýndi hann hvernig May hefði tekist til varðandi útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og sagði hana hafa hunsað ráðleggingar hans.
„Hvílíkt klúður sem hún og fulltrúar hennar hafa valdið,“ skrifaði Trump. „Ég þekki ekki sendiherrann, en hann er hvorki vel liðinn né í miklum metum í Bandaríkjunum. Við eigum ekki lengur í samskiptum við hann.“
„Góðu fréttirnar,“ bætti forsetinn við, „fyrir hið frábæra Stóra-Bretland er að það mun brátt fá nýjan forsætisráðherra. Þótt ég nyti virkilega heimsókn minnar þangað í síðasta mánuði, þá var það drottningin sem vakti mesta hrifningu hjá mér.“
Liam Fox, viðskiptaráðherra Bretlands, sem er þessa dagana í heimsókn í Washington, greindi BBC frá því að hann muni biðja Ivönku Trump, dóttur forsetans, sem hann á bókaðan fund með, afsökunar.