Hart tekist á hjá Johnson og Hunt

Boris Johnson og Jeremy Hunt takast á í kappræðum á …
Boris Johnson og Jeremy Hunt takast á í kappræðum á ITV-sjónvarpsstöðinni. AFP

Hart var tekist á í sjónvarpskappræðum þeirra Boris Johnson og Jeremy Hunt í kvöld, en þar deildu þeir m.a. um Brexit og samskipti breskra stjórnvalda við Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Kappræðurnar, sem voru í beinni útsendingu á ITV-sjónvarpsstöðinni, þóttu hinar líflegustu, en þeir Hunt og Johnson sækjast báðir eftir formannsembætti breska Íhaldsflokksins.

Hunt sakaði Johnson, sem talinn er líklegri til að hljóta embættið, um að vilja ekki taka þá áhættu að lofa að segja af sér sem forsætisráðherra takist honum ekki að ljúka útgönguferlinu úr Evrópusambandinu fyrir 31. október.

Johnson kvaðst hins vegar dást að hæfni andstæðings síns til að „skipta um skoðun“ og vísaði þar með til þess að Hunt kaus á sínum tíma með því að Bretar yrðu áfram í ESB.

Þá neitaði Johnson að fordæma Trump, sem sagði á Twitter sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum vera heimskan uppskafning, og að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefði farið illa að ráði sínu í samningaviðræðum um Brexit. Johnson neitaði raunar líka að svara því hvort hann myndi kalla sendiherrann heim, vegna leka á minnisblaðsins sem reitti Trump svo til reiði.

Kappræðurnar eru þær einu sem frambjóðendurnir taka þátt í áður en formannskosningunni lýkur 22. júlí, en þetta er í fyrsta skipti sem kjör 160.000 félaga í Íhaldsflokkinum ræður vali á forsætisráðherra landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka