Dómstóll í Brasilíu hefur úrskurðað námafyrirtækið Vale SA ábyrgt fyrir skaðanum sem varð þegar stífla brast í járngrýtisnámu þess í Minas Gerais-fylki í janúar á þessu ári með þeim afleiðingum að 240 manns hið minnsta létust.
Dómarinn, Elton Pupo Nogueira, úrskurðaði að Vale bæri ábyrgð á að laga allar skemmdir sem urðu í flóðinu. Hann tilgreindi þó ekki bótafjárhæðina og sagði á vefsíðu dómstólsins að ekki væri mögulegt að meta upphæðina eingöngu á tækni- og vísindagrundvelli.
Matið muni því ekki takmarkast við hina látnu, heldur einnig áhrifin sem flóðið hafi haft á umhverfi svæðisins og atvinnustarfsemi.
Brasilísk yfirvöld frystu fyrr á þessu ári eigur Vale, sem metnar eru á tæpa þrjá milljarða dollara og er sú frysting enn í gildi.
Forsvarsmenn Vale ítrekuðu í yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér eftir dómsúrskurðinn að fyrirtækið hafi fullan hug á að taka þátt í uppbyggingu á svæðinu og aðstoða fórnarlömb flóðsins, sem var annað flóðið á námasvæði fyrirtækisins í héraðinu á þriggja ára tímabili.