Ætla að gera Tsjernóbíl að túristastað

Ferðamenn taka hér myndir af Tsjernóbíl-kjarnorkuverinu af örugga svæðinu.
Ferðamenn taka hér myndir af Tsjernóbíl-kjarnorkuverinu af örugga svæðinu. AFP

Stjórnvöld í Úkraínu hafa nú hug á að gera svæðið í kringum Tsjernóbíl-kjarnorkuverið að ferðamannastað. Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, gaf í dag út forsetatilskipun þar sem útlistuð er áætlun fyrir göngustíga og aukið farsímasamband á svæðinu. BBC greinir frá.

Eitt stærsta kjarnorkuslys sögunnar átti sér stað í Tsjernobíl kjarnorkuverinu árið 1986 og er heildarfjöldi látinna enn umdeildur. Eftir að þættirnir Chernobyl fóru í loftið á Netflix-streymisveitunni hefur ferðamönnum sem gera sér ferð á slóðir kjarnorkuversins hins vegar fjölgað verulega.

Gestur í neðanjarðarbyrgi Tsjernóbíl-kjarnorkuversins.
Gestur í neðanjarðarbyrgi Tsjernóbíl-kjarnorkuversins. AFP

„Tsjernóbíl hefur lengi verið hluti af neikvæðri ímynd Úkranínu,“ sagði Zelensky í dag. „Það er orðið tímabært að breyta þessu.“

Sprenging varð í einum af kjarnaofnum versins í apríl 1986 og lagði geislavirkt ský í kjölfarið yfir ríki Evrópu. Segja Sameinuðu þjóðirnar að mengunin hafi náð yfir tæpa 50.000 km2 lands.

31 lést samstundis í kjölfar sprengingarinnar, en áhrifa hennar gætir enn í dag. Heildarfjöldi látinna er þó á reiki. Vitað er þó að a.m.k. 5.000 tilfelli krabbameins í skjaldkirtli má rekja til mengunarinnar og eins telja margir ýmsa fæðingargalla hjá börnum sem fæddust eftir slysið tengjast því.

Ferðamenn ganga hér um draugaborgina Pripyat, í nágrenni Tsjernóbíl-kjarnorkuversins, sem …
Ferðamenn ganga hér um draugaborgina Pripyat, í nágrenni Tsjernóbíl-kjarnorkuversins, sem íbúar urðu að yfirgefa í kjölfar kjarnorkuslyssins. AFP

„Við munum útbúa græn göng fyrir ferðamenn,“ sagði Zelensky. „Tsjernóbíl er einstakur staður, þar sem náttúran hefur endurfæðst í kjölfar hörmunga af mannavöldum. Við verðum að sýna heiminum þennan stað: vísindamönnum, vistfræðingum, sagnfræðingum og ferðamönnum,“ bætti hann við.

Þó að geislavirkni í Tsjernóbíl sé enn yfir meðallagi láta þúsundir ferðamanna það ekki stöðva sig í að heimsækja staðinn.

Í tilskipun forsetans er útlistuð áætlun fyrir vatnsleiðir og eftirlitsstöðvar á svæðinu, auk þess sem banni við myndatökum á staðnum verður aflétt.

Þá verður rafrænu aðgangskerfi komið á, en með því ætla stjórnvöld að koma í veg fyrir að laganna verðir taki við mútum frá gestum.

Ferðamenn fara hér í gegnum tæki sem mæla geislavirkni í …
Ferðamenn fara hér í gegnum tæki sem mæla geislavirkni í heimsókn sinni í Tsjernóbíl. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert