Gagnrýna meðferð á uighur múslumum

Lögreglumaður stendur vörð þegar uighur-múslimar mæta til morgunbænar. Yfirvöld í …
Lögreglumaður stendur vörð þegar uighur-múslimar mæta til morgunbænar. Yfirvöld í Xinjiang-héraði fylgjast náið með minnihlutahópnum í héraðinu. AFP

Ísland og 21 ríki til viðbótar sem eiga sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem meðferð kínverskra ráðamanna á uighur-múslimum í Xinjiang héraðinu í Kína er gagnrýnd.

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasamtök segja kínversk yfirvöld vera með um eina milljón uighur-múslima í haldi í sérstökum kyrrsetningabúðum.

Kínversk stjórnvöld fullyrða hins vegar að um sé að ræða sérstakar starfsþjálfunarbúðir sem ætlaðar séu til að vinna gegn öfgasinnum.

Í bréfinu, sem m.a. er undirritað af sendifulltrúum Íslands, Bretlands, Kanada og Japan segir um að ræða umfangsmiklar kyrrsetningabúðir og útbreitt eftirlit, sem sérstaklega beinist gegn uighur-múslimum og öðrum minnihlutahópum í Xinjiang. Ísland fer, líkt og kunnugt er, með formennsku í mannréttindaráðinu þessi misserin.

Eru kínversk yfirvöld í bréfinu hvött til að veita Sameinuðu þjóðunum og óháðum alþjóðlegum eftirlitsmönnum aðgang að Xinjiang.

BBC bendir á að bréf á borð við þetta hafi hins vegar ekki sambærilega vigt og formleg yfirlýsing sem lesin er upp á fundi mannréttindaráðsins, eða sameiginleg ályktun sem lögð er fram til atkvæðagreiðslu.

Segja heimildamenn Reuters ástæðu þess að þessi leið var farin vera ótta við efnahagslegar- og pólitískar afleiðingar deilna við kínversk stjórnvöld.

John Fisher, yfirmaður hjá mannréttindasamtökunum Human Rights Watch, segir bréfið engu að síður setja þrýsting á kínversk yfirvöld að láta af „hræðilegri meðferð á múslimum í Xinjiang“.

Sannanir sem BBC hefur aflað sér sýna að yfir 400 börn í einu þorpi í Xinjiang hafa misst báða foreldra vegna kyrrsetningar af einhverri gerð. Segir BBC að svo virðist sem margir hafi verið teknir og þeim refsað fyrir að tjá trú sína, til að mynda með því að biðja eða bera slæðu, eða þá fyrir að hafa tengsl við erlend ríki á borð við Tyrkland.  

Sendiherra Kína í Bretlandi hafnar því hins vegar  alfarið að börn séu með kerfisbundnum hætti skilin frá foreldrum sínum.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert