Sir Kim Darroch hefur sagt af sér embætti sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum eftir að tölvupóstum lak þar sem hann fór vægast sagt gagnrýnum orðum um Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Trump hefur meðal annars kallað Darroch „mjög heimskan mann.“ Sagt er frá því hjá BBC að Darroch hefði sagt af sér, en BBC fékk það staðfest hjá utanríkisþjónustu Bretlands.
Darroch sagði að lekinn hafi gert honum fullkomlega ómögulegt að sinna starfi sínu sem sendiherra. Með því að segja af sér gæti hann bundið enda á óvissuna sem ríkti í tengslum við sendiherraembætti eftir að gögnin láku.
Í gögnunum lýsti Darroch bandarískum stjórnvöldum sem óhæfum og ótraustum vegna stjórnar Trump forseta. Theresa May forsætisráðherra Bretlands hafði sagt lekan óásættanlegan en þó sagst bera traust til sendiherrans. Trump brást ókvæða við því sem kom fram í gögnunum og sagði sendiherrann aldrei hafa verið í miklum metum hjá Bandaríkjamönnum.