Lík fannst í neðanjarðarbyrgi nasista

Lýst var eftir Suzanne Eaton á Krít eftir að hún …
Lýst var eftir Suzanne Eaton á Krít eftir að hún hvarf sporlaust. Skjáskot/Facebook

Lík bandaríska sameindalíffræðingsins Suzanne Eaton fannst í neðanjarðarbyrgi á Krít sem síðast var notað af nasistum meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð. Víðtæk leit að henni hafði staðið yfir síðan 2. júlí eftir að tilkynnt var um hvarf hennar. Það er nánast öruggt að hún hafi verið myrt.

BBC og CBS greina frá.

Suzanne Eaton var 59 ára gömul og starfaði sem sameindalíffræðingur í hinni margrómuðu Max Planck-stofnun í Þýskalandi. Hún ferðaðist til Krítar til að vera viðstödd ráðstefnu sem haldin var í hafnarborginni Chania.

Persónulegir munir hennar eins og vegabréf, veski, sími og lyklar fundust á hótelherberginu hennar. Það eina sem fannst ekki voru hlaupaskór og því var talið er að hún hafi farið út að hlaupa 2. júlí. Ekkert spurðist til hennar eftir þann dag. Hófst þá víðtæk leit að henni. Sex dögum síðar fannst lík hennar í neðanjarðarbyrgi sem var síðast notað þegar hernám nasista á Krít í síðari heimsstyrjöld stóð yfir.

Líkið vafið inn í sekk

Niðurstöður krufningar eru að hún hafi kafnað en engir sýnilegar áverkar voru á líkinu. Talið er nánast öruggt að hún hafi verið myrt þar sem lík hennar var vafið inn í einhvers konar strigapoka eða sekk.

Eaton var mikil íþrótta- og hlaupakona og var með svarta beltið í sjálfsvarnaríþróttinni taekwondo.

Lögreglan á Krít rannsakar nú hvort Eaton hafi dáið í neðanjarðarbyrginu eða hvort lík hennar hafi verið falið þar eftir andlát hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert